Flóknar viðræður fram undan

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðarmála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðarmála. mbl.is/Eggert

„Þetta eru flóknar viðræður og verkefnið er alveg stórt, en okkur fannst kominn tími á að taka þetta skref. Ríkisendurskoðun hefur bent á að það sé óheppilegt að Landsnet sé í eigu Landsvirkjunar og annarra, þ.e. bæði dreifiveitna og þeirra sem eru að framleiða orku,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra iðnaðarmála í samtali við mbl.is, en hún tilkynnti á ársfundi Landsvirkjunar í dag að til stæði að hefja viðræður um kaup ríkisins á Landsneti.

Landsnet er í eigu Lands­virkj­un­ar (64,73%), RARIK (22,51%), Orku­veitu Reykja­vík­ur (6,78%) og Orku­bús Vest­fjarða (5,98%). Þetta eru því ekki bara ríkisfyrirtæki, heldur líka fyrirtæki í eigu borgarinnar.

„Nú töldum við bara vera kominn tíma til þess að aðskilja þetta, þannig að þú ert bara annars vegar með bara flutningskerfið og hins vegar dreifiveitur og þá sem eru að framleiða rafmagnið. Þetta er í samræmi við almenna þróun, að þessi skipting sé alveg skýr, þannig að okkur fannst vera kominn tími til að taka þetta skref,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar tekur undir með ráðherra, og segir eðlilegt að ríkið kaupi Landsnet.

Gerð er krafa um að flutningskerfi og framleiðendur séu að fullu aðskilin í hinum margumrædda þriðja orkupakka, sem til stendur að innleiða hér á landi, rétt eins og þann fyrsta og annan. Ísland hefur verið með undanþágu hvað þetta varðar og svo verður áfram, segir ráðherra.

„Þannig að þetta er ekki eitthvað sem við erum að gera vegna þess að við þurfum það út frá þessum innleiðingum, því við erum með undanþágu. Við vildum fá að gera þetta á okkar forsendum og nú erum við að stíga þau skref,“ segir ráðherra.

„Hræðist ekki þetta samtal“

Það styttist í að þriðji orkupakkinn verði lagður fram á Alþingi, málið er á þingmálaskrá á þessu þingi en Þórdís Kolbrún segir ekki liggja fyrir nákvæmlega hvenær frumvarp hennar um efnið verður lagt fyrir. Fyrst mun utanríkisráðherra leggja fram þingsályktunartillögu vegna málsins, sem afléttir stjórnskipulegum fyrirvara.

„Ég reikna með því að það sé ekki langt í það, og í kjölfarið er þetta frumvarp mitt, en nákvæmlega hvenær eða hvernig það mun líta út, það er áfram í vinnslu í ráðuneytunum tveimur,“ segir Þórdís Kolbrún.

Málið hefur verið umdeilt og hávær gagnrýni hefur komið fram á innleiðingu þriðja orkupakkans, bæði innan flokks ráðherra og utan. Ráðherra segist ekki hræðast samtalið, þegar að því komi.

„Ég geri mér fulla grein fyrir gagnrýni á þessa innleiðingu, ég hef tekið hana alvarlega og við höfum lagst í mikla vinnu við greiningar, upplýsingagjöf og annað og erum enn þá að skoða þetta út frá því, en ég hræðist ekki þetta samtal og ég væri aldrei að leggja til að við værum að innleiða eitthvað sem ég teldi skaða hagsmuni Íslands eða Íslendinga,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún nefndi sérstaklega í ávarpi sínu á ársfundi Landsvirkjunar í dag að hópur fólks hygðist mótmæla innleiðingu orkupakkans og nota til þess slagorðið „Orkan okkar“, en félagasamtök með því nafni voru einnig stofnuð í haust, um það leyti er umræður um orkupakkann voru í hámæli, samkvæmt því sem fram kemur í fyrirtækjaskrá. Ráðherra segist hafa heyrt frá þessum samtökum.

„Ég hef heyrt af þessum hópi og hitt fulltrúa frá honum og á nú lyklakippu með þessu slagorði, en þetta er bara gagnrýni þeirra. Það er eðlilegt að fólk haldi fram gagnrýni á einhver mál og vilji upplýsta umræðu um viðamikil og flókin mál eins og þetta er í heild sinni, þrátt fyrir að akkúrat þriðji orkupakkinn sé tæknilegt framhald á fyrsta og öðrum og áframhald á þessari vegferð,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert