Ísland heiðursgestur á pólskri bókamessu

Elísabet Jökulsdóttir, Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Steinunn Sigurðardóttir og Sigríður …
Elísabet Jökulsdóttir, Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Steinunn Sigurðardóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir.

Ísland verður heiðursgestur á bókamessunni Gdańskie Targi Książki sem fram fer í Gdansk í Póllandi helgina 29.-31. mars 2019. Þar verða íslenskar bókmenntir og höfundar í brennidepli, sem og þýðingar úr íslensku á pólsku. 

Í fréttatilkynningu kemur fram að hátíðin hafi verið haldin í fyrsta skipti í fyrra en Miðstöð íslenskra bókmennta þáði boð um heiðursþátttökuna þar sem  þarna gefist mikilvægt tækifæri til að kynna íslenskar bókmenntir í Póllandi. 

Aðstandendur bókamessunnar hafa boðið til Gdansk nokkrum íslenskum höfundum sem eiga nú þegar bækur í pólskri þýðingu eða eru væntanlegar á næstunni. Höfundarnir eru þau Hallgrímur Helgason, Steinunn Sigurðardóttir, Einar Kárason, Elísabet Jökulsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir.

Þýðendur íslenskra bókmennta á pólsku verða einnig þátttakendur á messunni. Jacek Godek er öflugasti þýðandi íslenskra bókmennta á pólsku og verður hann í pallborði með höfundunum þar sem rætt verður um þýðingar bókanna, áskoranir og pælingar um tungumálið, menningu og fleira og fleira. Miðstöð íslenskra bókmennta verður jafnframt með bás á messunni með nýjum íslenskum bókum sem og bókum eftir íslenska höfunda í pólskri þýðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert