Lokunin kemur ráðuneytinu á óvart

SÁÁ hóf rekst­ur göngu­deild­ar á Ak­ur­eyri í byrj­un árs 1993 …
SÁÁ hóf rekst­ur göngu­deild­ar á Ak­ur­eyri í byrj­un árs 1993 og hef­ur deild­in sinnt ráðgjöf og grein­ingu fyr­ir áfeng­is- og vímu­efna­sjúk­linga á öllu Norður­landi síðan. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Samningaviðræður standa yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um rekstur göngudeildarþjónustu á Akureyri. Fjárframlag af hálfu ríkisins til starfseminnar er tryggt í fjárlögum þessa árs. Það kemur því á óvart að SÁÁ ætli að loka göngudeildarþjónustunni tímabundið frá og með morgundeginum vegna kostnaðar.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynnt var í gær að SÁÁ þurfi að loka göngudeild sinni á Akureyri sökum fjárskorts.

Starfsemi SÁÁ var tryggð í fjárlögum í nóvember með 150 milljóna króna viðbótarfjármagni og var það í fyrsta sinn sem ríkið veitti sérstaka fjárveitingu til reksturs göngudeildarþjónustu.

Sjúkratryggingar Íslands annast gerð samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins og í samræmi við það hefur stofnunin átt í viðræðum við SÁÁ um gerð þjónustusamnings vegna göngudeildarþjónustunnar á Akureyri.

SÁÁ og Sjúkratryggingar Íslands funduðu í byrjun vikunnar. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins frá SÍ kom fram af hálfu fulltrúa SÁÁ að samtökunum væri vandi á höndum við að manna þjónustu göngudeildarinnar en það var ekki skilningur fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands að SÁÁ vildu slíta samningaviðræðum eða loka starfseminni.

Þá vonar ráðuneytið að samningaviðræðum aðila verði haldið áfram og að ekki verði rof í þjónustunni á Akureyri meðan unnið er að gerð samnings um þjónustuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert