Efling boðar frekari verkföll sem ná til 40 hótela

Efling boðar til frekari verkfalla en þegar hefur verið gert.
Efling boðar til frekari verkfalla en þegar hefur verið gert. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samninganefnd Eflingar hefur ákveðið að boða til frekari verkfallsaðgerða og munu þær ná til 40 fyrirtækja í hótel- og gistingarekstri. Þá munu verkföllin einnig ná til hópbifreiðafyrirtækja, að því er segir í tilkynningu á heimasíðu Eflingar. Munu fyrstu aðgerðir hefjast 22. mars og verða þær ótímabundnar frá 1. maí.

Samkvæmt samþykkt samninganefndarinnar munu aðeins þeir félagsmenn sem verkfallsboðunin nær til greiða atkvæði um aðgerðir Eflingar.

Vinnustöðvun félagsmanna Eflingar er fyrirhuguð á sama tíma og VR hefur tilkynnt verkfallsaðgerðir sínar.

„Að auki samþykkti samninganefndin að boðað verði til smærri verkfallsaðgerða á ofangreindum vinnustöðum á tímabilinu 18. mars til 30. apríl á þeim dögum sem falla utan fullrar vinnustöðvunar. Þær aðgerðir fela í sér að starfsmenn mæta til vinnu en fella niður einstaka verkþætti svo sem nánar er lýst í tillögu samninganefndar,“ segir á vef Eflingar.

Verkfallsaðgerðir Eflingar munu vera á eftirfarandi dögum:

Frá klukkan 00:01 til klukkan 23:59 þann 22. mars.

Frá klukkan 00:01 þann 28. mars 2019 til klukkan 23:59 þann 29. mars.

Frá klukkan 00:01 þann 3. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 5. apríl.

Frá klukkan 00:01 þann 9. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 11. apríl.

Frá klukkan 00:01 þann 15. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 17. apríl.

Frá klukkan 00:01 þann 23. apríl 2019 til klukkan 23:59 þann 25. apríl.

Ótímabundin vinnustöðvun frá klukkan 00:01 þann 1. maí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert