Áhrifin meiri eftir því sem tíminn líður

WOW Air fékk mánaðarfrest til að ganga frá samn­ing­um.
WOW Air fékk mánaðarfrest til að ganga frá samn­ing­um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eina sem maður veit í þessu er að það er ekkert sem kemur manni á óvart lengur í framvindu þessa máls,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, í samtali við mbl.is um nýjustu fréttir af WOW air.

WOW air hefur átt í viðræðum við Indigo Partners um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í WOW Air. Frestur til þess að ljúka viðræðum rann út í gær, en undir miðnætti í gærkvöldi tilkynnti WOW Air að þó að samkomulag væri ekki í höfn, hefði verið ákveðið að halda vinnu áfram í samkomulagsátt til 29. mars. Fel­ur það í sér mánaðar fram­leng­ingu á fyrra sam­komu­lagi.

„Þetta er greinilega erfiðara en menn héldu. Kannski eru þetta bara einhver formsatriði sem þarf að klára, eða þá að þetta er að brotna. Það er erfitt að ráða í það, en mann grunar að það hafa verið fullt af lausum endum sem verið er að reyna að binda saman,“ segir Sveinn.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum.
Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna

WOW Air og Indigo Partners hófu viðræður í lok nóvember, fyrir um þremur mánuðum. Hvaða áhrif gæti það haft að þetta óvissuástand vari lengur?

„Það er erfitt að átta sig á því hvaða áhrif þetta hefur á farþegaflutninga hjá WOW gagnvart erlendum farþegum. Þetta er svolítið heitt mál á Íslandi, en maður veit ekki hvort erlendir farþegar viti af stöðunni hjá WOW. En það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Ísland, að hafa samkeppni á flugmarkaði, þannig að við vonumst svo sannarlega eftir því að samkomulag náist,“ segir Sveinn.

Fari svo að engin niðurstaða fáist í málið, allt fari á versta veg og slíkt verði ekki ljóst fyrr en í lok mars, væri komið ansi nærri sumri þar sem fjölmargar gistinætur og annað er í húfi í ferðaþjónustunni.

„Þetta skiptir miklu máli fyrir ferðamannaiðnaðinn, svo ég get ekki ímyndað mér annað en að menn séu að drífa sig út af því. Því lengri tíma sem þetta tekur, þeim mun meiri áhrif mun þetta hafa. Þetta getur fallið hvoru megin sem er. Kannski er lending alveg að nást, eða þá að þetta sé búið og verið sé að bjarga einhverjum hagsmunum. En við verðum að reyna að leyfa þeim að útkljá þetta án þess að giska of mikið í eyðurnar,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum.

Búið að greiða starfsfólki laun

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að laun starfsfólks WOW air hafi ekki verið greidd í gær, en félagið hefur haft þann háttinn á undanfarin misseri að greiða út laun á síðasta degi mánaðar. Það væri þó ekki brot á kjarasamningum, þar sem þeir kveði ekki á um að greiða þurfi út fyrr en fyrsta dag hvers mánaðar.

Samkvæmt heimildum mbl.is er búð að greiða starfsfólki WOW air laun í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert