Þrjár vikur liðnar en ekki tomma gefin eftir

Jón Þröstur Jónsson hvarf sporlaust fyrir réttum þremur vikum. Þrýst …
Jón Þröstur Jónsson hvarf sporlaust fyrir réttum þremur vikum. Þrýst er á björgunarsveitir að hjálpa til.

„Manni finnst eins og það sé eitthvað að fara að falla með okkur,“ segir Davíð Karl Wiium í samtali við mbl.is, bróðir Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf í Dyflinni fyrir þremur vikum.

Verið er að vinna úr ábendingum um afdrif Jóns Þrastar en þær skipta tugum. Á meðal ábendinga er allt frá skilaboðum frá fólki sem segist hafa séð hann til fólks sem telur sig hafa átt samskipti við hann. Og fleiri ábendingar berast í stríðum straumi.

Davíð er jákvæður fyrir framhaldinu. Hann segir að þetta séu góðar ábendingar, sem verið er að vinna úr. Hann telur að nú fari að koma eitthvað nýtt fram. „Ég held að nú fari þessar ábendingar að skila okkur einhverju og færa okkur nær,“ segir hann.

Að vonum berast þó mishaldgóðar ábendingar og nokkur tími fer í að sannreyna þær. Eftir að fjölskylda Jóns var gestur í vinsælum sjónvarpsþáttum írskum barst holskefla ábendinga.

Davíð segir þá jákvæð teikn á lofti um að írskar björgunarsveitir komi þeim til aðstoðar. Ef svo fer þó ekki verður skipulögð önnur sjálfboðaliðaleit eins og sú sem var gerð síðustu helgi.

Aðspurður segist Davíð ekki vera miklu nær um hvað kann að hafa borið til, þegar bróðir hans hvarf. Hann segir hausinn hvarfla til allra átta og að hann útiloki enn þá ekki neitt.

„En tíminn líður,“ segir hann „og við gefum ekki tommu eftir. Það er mikill kraftur í fjölskyldunni og eftir sjónvarpsviðtölin er varla sála í Írlandi sem þekkir ekki til málsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert