Ábending um farartæki skoðuð

Jón Þröstur Jónsson fannst ekki í kílómetra radíus frá hvarfstaðnum. …
Jón Þröstur Jónsson fannst ekki í kílómetra radíus frá hvarfstaðnum. Það stækkar leitarsvæðið.

Eftir ítarlega leit björgunarsveitar í Dublin í dag hefur fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar svo að segja leitað af sér allan grun á svæðinu í um það bil kílómetra radíus frá staðnum þar sem hann sást síðast. Ýmislegt bendir til þess að Jón Þröstur hafi farið upp í farartæki af einhverjum toga.

Bróðir Jóns Þrastar, Davíð Karl Wiium, er feginn að Jón hafi ekki fundist á þessu svæði. „Þetta vekur von um að það sé í lagi með hann, af því að það lítur út fyrir að hann hafi farið af þessu svæði,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

„Það lítur allt út fyrir að hann hafi farið upp í farartæki,“ segir Davíð en slær þó engu föstu. Meðal ábendinga sem írskri lögreglu hefur borist var meint ferð Jóns Þrastar í leigubíl. Hún hefur ekki fengið staðfest.

Björgunarsveitin kembdi sem sé svæðið í kringum hvarfstað Jóns og hann fannst ekki þar. Næstu skref eru ekki á hreinu, áfram leitar fjölskylda og breiðir út erindið, en óljóst er hvenær og hvort björgunarsveitin taki aftur til starfa, segir Davíð.

Leitarsvæðið stækkaði umtalsvert við það að í ljós kom, að Jón var ekki að finna á umræddu svæði.

Annars halda Davíð og fjölskylda ótrauð áfram. „Það vona allir að hann finnist heill á húfi,“ segir Davíð. Beðið er eftir úrvinnslu ábendinga. Hann segir enn þá engar kenningar uppi, hvorki hjá lögreglu né fjölskyldu, um saknæmt athæfi eða sjálfsskaða.

Leitarsvæðið sem hefur verið útilokað er í sirka kílómetra radíus …
Leitarsvæðið sem hefur verið útilokað er í sirka kílómetra radíus frá Highfield Hospital, en í götu þar hjá sást Jón ganga síðast. Svæðið sem hefur verið kembt er það sem er A1 á myndinni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert