„Fortíðin var sem límd við mig“

Mazen Maarouf rithöfundur með bók sína Brandarar fyrir byssumenn.
Mazen Maarouf rithöfundur með bók sína Brandarar fyrir byssumenn. mbl.is/Árni Sæberg

Rithöfundurinn Mazen Maarouf kom hingað til lands frá Líbanon fyrir átta árum, en hann hafði dvalist þar í landi sem palestínskur flóttamaður lungann úr ævinni. Mazen var gestur Reykjavíkurborgar sem skaut yfir hann skjólshúsi, en hann fékk síðar íslenskan ríkisborgararétt.

Í ljóðabókinni Ekkert nema strokleður, sem kom út 2013, er úrval ljóða úr þremur ljóðabókum Mazens. Fyrir stuttu kom svo út bókin Brandarar handa byssumönnum sem í eru fjórtán lauslega tengdar smásögur sem fjalla margar um börn í stríði eða eru sagðar frá sjónarhorni barns. Bókin kom út á arabísku árið 2016 og á ensku fyrir stuttu.

Eins konar tilraun

Mazen segir að sögurnar séu skrifaðar í Reykjavík á árunum 2015 til 2016: „Þær eru sprottnar af þörf til að greiða úr minningum og mjög persónulegar að sumu leyti, en þó skáldskapur. Eins konar tilraun til að skrásetja persónur sem eru í minni mér, velta því fyrir mér hvað hafi orðið um þær og þá helst barnið sem á sitthvað skylt með mér. Mig langaði til að skoða þetta barn, barn sem orðið hefur fyrir áföllum vegna stríðsins, og sjá hvar það er statt í dag.

Við það að skrifa sögurnar komst ég að því að barnið er hugrakkt og fljótt að bregðast við, tekst á við umhverfi sitt og stríðið án þess að glata sakleysinu og barnæsku að öllu leyti. Að skrifa veitti mér því hugfró.

Sögurnar byggjast á lífi mínu í Beirút á stríðstímum áttunda áratugarins þegar ég var barn. Eftir því sem ég óx úr grasi fann ég nefnilega að fortíðin var sem límd við mig og því fastar eftir því sem sem árin liðu. Ég fann að ég gat ekki gleymt þessum tíma; líkaminn gat ekki gleymt því sem hafði gengið á. Persónurnar voru til staðar, líka þær sem lifðu ekki átökin af, og mig langaði að skoða hvað hefði getað orðið um þau, hvernig þeim hefði farnast.

Ég bjóst þó ekki við því að ég myndi skrifa bók sem þessa, að segja slíkar sögur. Það kom mér á óvart, satt best að segja, að þær skyldu birtast á þennan hátt, en það var líka léttir.“

Glíman við tilveruna er sammannleg

– Það er erfitt fyrir fólk sem ekki þekkir annað en frið að skilja sögur eins og þínar og margt að því sem maður glímir við og amast við í okkar samfélagi virkar hálfhjákátlegt samanborið við það sem fólk þarf að þola í stríðshrjáðum löndum.

„Ég skil það sjónarmið, en glíman við tilveruna, við það að vera til, er sammannleg og þá ekki bara í gegnum stóratburði, heldur í gegnum allt það smáa sem gerist hversdags, eins og hvernig veðrið sé og hvað eigi að hafa í matinn og hvað eigi að hafa fyrir stafni. Það krefst alltaf eitthvað þess að við tökum ákvarðanir sem gera okkur kleift að vera til og halda heilsu.

Að því sögðu þá vekur það að búa við stríðsástand kvíða og óöryggi og það að glata öryggistilfinningunni sem barn verður til þess að skilin á milli raunveruleika og skáldskapar hverfa, maður veit ekki lengur hvað er satt og hvað er skáldað. Þegar maður hverfur svo til baka í huganum rennur allt saman, verður eins og skáldskapur þótt það sé raunveruleiki, maður glatar hæfileikanum til að greina á milli. Hluti af því að skrifa sögurnar er að velta fyrir sér klisjunum, spyrja hvað sé satt og hverju megi trúa.“

Þegar ég ræði við Mazen er hann staddur í Reykjavík, nýkominn til landsins eftir dvöl ytra og á leið aftur út. „Ég er að skrifa skáldsögu, að reyna að ljúka við hana áður en ég yfirgef Ísland. Reykjavík er góður staður til að skrifa á, öruggt skjól sem hentar mér einkar vel. Veðrið, menningin og fólkið er frábrugðið því sem ég ólst upp við en ég er svo lánsamur að búa hér, að vera með íslenskt ríkisfang sem gerir mér kleift að finna sjálfan mig og geta skrifað. Það er mér mjög mikilvægt að skrifa í Reykjavík, þetta er borgin sem veitti mér skjól og landið sem veitti mér ríkisfang, ég hafði aldrei verið með ríkisfang áður.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert