Tómas Ingi vann stærðfræðikeppnina

Þau Tómas Ingi, Vigdís, Margrét, Skjöldur Orri, Bjarki, Arnar Ágúst, …
Þau Tómas Ingi, Vigdís, Margrét, Skjöldur Orri, Bjarki, Arnar Ágúst, Magni Steinn, Friðrik Valur, Jón Gunnar og Heiðar Snær verða fulltrúar Íslands í Norrænu stærðfræðikeppninni 1. apríl. Á myndina vantar Hrólf, Andra Snæ, Árna, Þorstein Ívar, Friðrik Snæ, Guðmund Frey, Andra Þór og Davíð Frey. Ljósmynd/Aðsend

Tómas Ingi Hrólfsson, nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð, bar sigur úr býtum í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema sem fram fór á laugardag, en 35 nemar tóku þátt í keppninni. Sigur Tómasar Inga var nokkuð afgerandi, en hann hlaut 59 stig af 60 mögulegum.

Í öðru sæti var Hrólfur Eyjólfsson úr Menntaskólanum í Reykjavík, en hann hlaut 48 stig. Í þriðja sæti var svo Andri Snær Axelsson, einnig úr MR, með 47 stig.

Nemendurnir sem enduðu í 18 efstu sætunum munu taka þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni fyrir Íslands hönd, en hún fer fram 1. apríl næstkomandi, en einnig hefur þeim Tómasi Inga og Andra Snæ verið boðið að taka sæti í sex manna liði Íslands fyrir Ólympíukeppni í stærðfræði, sem fram mun fara í Bath í Bretlandi.

Þeim Árna Bjarnsteinssyni og Vigdísi Gunnarsdóttur, sem bæði eru í MR, hefur einnig verið boðið sæti í ólympíuliðinu, en þau enduðu í 4.-5. sæti með 42 stig hvort. Hrólfur, sem endaði í öðru sæti, getur því miður ekki tekið þátt í þeirri keppni þar sem hann verður orðinn of gamall er hún fer fram, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu. Tvö sæti í liðinu eru enn laus og mun það ráðast eftir norrænu keppnina hvaða tveir nemendur komast í íslenska ólympíuliðið.

Hluti keppendanna 35 sem tóku þátt í úrslitum í Stærðfræðikeppni …
Hluti keppendanna 35 sem tóku þátt í úrslitum í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Úrslit voru tilkynnt í verðlaunahófi í Háskólanum í Reykjavík í gær, en þar var farið yfir stærðfræðikeppnisárið og viðurkenningar afhentar, en efstu keppendur hlutu auk þess peningaverðlaun; 50 þúsund fyrir 1. sæti, 30 þúsund fyrir 2. sæti og 20 þúsund fyrir 3. sæti.

Fjórða dæmið af sex sagt vinsælast

Keppnin er undirbúin í sjálfboðaliðastarfi nefndar á vegum Stærðfræðafélags Íslands og Félags raungreinakennara og fyrir úrslitakeppnina lagði Háskólinn í Reykjavík til húsnæði og kaffiveitingar. Alls 341 nemandi víðs vegar af landinu úr 20 framhaldsskólum tók þátt í forkeppninni í ár, en þeim rétt rúmlega fjörutíu sem bestum árangri náðu þá var boðið til leiks í úrslitum. Hafa þeir nemendur fengið send æfingadæmi í vetur, til undirbúnings fyrir úrslitarimmuna.

Lokakeppnin samanstóð af sex verkefnum sem nemendur fengu fjóra tíma til að glíma við. Bestum árangri náðu þeir í dæmi 1 og 2 en dæmi 4 var vinsælast og var á þessa leið:

Meðal 25 hesta viljum við finna þrjá þá fljótustu. Við höfum enga klukku en hlaupabraut þar sem við getum látið fimm hesta hlaupa í einu og séð í hvaða röð þeir koma í mark. Gerum ráð fyrir að sérhver hestur hlaupi á föstum hraða og að allir séu þeir misfljótir. Sýnið að hægt er að finna þrjá fljótustu hestana og innbyrðis röð þeirra í sjö hlaupum.

Vitanlega þurfti rökstuðningur að fylgja svarinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Hér að neðan er listi yfir þá 18 nemendur sem náðu bestum árangri í keppninni og fara fyrir Íslands hönd í Norrænu stærðfræðikeppnina:

Úrslitasæti

Nafn

Skóli

1.

Tómas Ingi Hrólfsson

Menntaskólanum við Hamrahlíð

2.

Hrólfur Eyjólfsson

Menntaskólanum í Reykjavík

3.

Andri Snær Axelsson

Menntaskólanum í Reykjavík

4.-5.

Árni Bjarnsteinsson

Menntaskólanum í Reykjavík

4.-5.

Vigdís Gunnarsdóttir

Menntaskólanum í Reykjavík

6.-7.

Þorsteinn Ívar Albertsson

Menntaskólanum í Reykjavík

6.-7.

Friðrik Snær Björnsson

Menntaskólanum á Akureyri

8.-9.

Jón Gunnar Hannesson

Menntaskólanum í Reykjavík

8.-9.

Arnar Ágúst Kristjánsson

Menntaskólanum í Reykjavík

10.-11.

Margrét Snorradóttir

Menntaskólanum í Reykjavík

10.-11.

Heiðar Snær Ásgeirsson

Kvennaskólanum í Reykjavík

12.-13.

Skjöldur Orri Eyjólfsson

Menntaskólanum í Reykjavík

12.-13.

Guðmundur Freyr Ellertsson

Menntaskólanum í Reykjavík

14.

Andri Þór Stefánsson

Menntaskólanum á Akureyri

15.

Bjarki Baldursson Harksen

Menntaskólanum í Reykjavík

16.

Magni Steinn Þorbjörnsson

Menntaskólanum á Akureyri

17.-18.

Friðrik Valur Elíasson

Menntaskólanum á Akureyri

17.-18.

Davíð Freyr Þorsteinsson

International School of Brussels

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert