Austurríska áldósin á álftinni

Red Bull-dósin sem var losuð af goggi álftarinnar við Urriðakotsvatn …
Red Bull-dósin sem var losuð af goggi álftarinnar við Urriðakotsvatn í dag. Hún hafði verið með hana á goggnum í að minnsta kosti tvær vikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fyrra var enn eitt metárið í sölu á orkudrykknum Red Bull í heiminum. Þá seldust 6,7 milljarðar dósa af drykknum sem „veitir vængi“ eins og segir í auglýsingunni. Ein þessara áldósa var keypt á Íslandi og endaði föst á goggi álftar sem var nær dauða en lífi er henni var komið til bjargar í dag. Umbúðirnar utan af orkudrykknum gríðarvinsæla urðu því til þess að álftin særðist, hætti að nærast og gat að lokum ekki flogið, þótt vængina hefði hún vissulega.

Álftin valdi vitanlega ekki að festa gogg sinn í dós utan af þessum tiltekna orkudrykk. Það er að vissu leyti tilviljun að Red Bull-dós endaði þar en ekki áldós utan af öðrum drykk. Af áldósunum er nóg í heiminum. Líklega eru um 200 milljarðar slíkra dósa seldar árlega, og þá um 6.700 á hverri sekúndu, líkt og segir á einni fróðleikssíðunni á netinu. Sífellt fleiri drykkjarvöruframleiðendur velja álumbúðir og því eykst fjöldi dósa sem er seldur um víða veröld stöðugt. Er því spáð að eftirspurnin haldi áfram að aukast um 3,5-4% árlega í nánustu framtíð.

Yfir 500 bjórframleiðendur í heiminum bjóða yfir 1.700 tegundir bjóra sem seldir eru í áldósum, svo dæmi sé tekið. Úrval orkudrykkja í áldósum hefur aldrei verið meira og þar er talið að vöxtur í notkun áldósanna verði hvað mestur. Skýringin felst í miklum vinsældum óáfengra drykkja, s.s. orkudrykkja og ávaxtadrykkja ýmiss konar, aðallega meðal ungs fólks. Álið verður svo fyrir valinu meðal annars vegna þess að það er létt og bæði loft- og ljóshelt.

Fyrsta áldósin utan um drykk var framleidd árið 1959 og samtímis var endurvinnsla hennar kynnt til sögunnar en málmurinn ál er þeim eiginlegum gæddur að hægt er að endurvinna hann aftur og aftur.

Álftin með áldósina á gogginum.
Álftin með áldósina á gogginum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag enda flestar áldósir sem keyptar eru á Íslandi á endurvinnslustöðvum eða yfir 90% þeirra. Það þýðir þó að umtalsvert magn skilar sér ekki þangað og endar jafnvel á víðavangi.

Á það vorum við harkalega minnt þegar fréttist af álftinni með dósina á gogginum við Urriðakotsvatn. „[...] þessi viðburður sýnir enn og aftur hve mikilvægt það er að koma í veg fyrir að ruslið okkar endi í náttúrunni,“ stóð í færslu umhverfisverndarsamtakanna Landverndar sem skrifuð var að lokinni björgun álftarinnar í morgun.

Í frétt á vef samtaka álframleiðenda í Evrópu segir að endurvinnsluhlutfall drykkjardósa hafi verið tæp 74% í álfunni árið 2015 og að stefnan sé sett á að ná því í 80% á næsta ári. Endurvinnsluhlutfall áls við framleiðslu á áldósum er því um 70% eða þrefalt það sem við á um gler og plast, segir í umfjöllun um málið á vef Rio Tinto sem rekur álverið í Straumsvík.

Á vef Endurvinnslunnar stendur að það taki áldós um 200 ár að leysast upp í umhverfinu en einungis um 60-80 daga taki að endurvinna hana. Aðeins þurfi 5% af orkunni sem notuð er við frumvinnslu áls til endurvinnslu þess. Það er því til mikils að vinna að áldósir skili sér á endurvinnslustöðvar.

Dósin var klippt af goggi álftarinnar í morgun.
Dósin var klippt af goggi álftarinnar í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ál er til margra hluta nytsamlegt, s.s. í farartæki á borð við bíla og flugvélar. Álframleiðsla er orkufrekur iðnaður. Þó að ál sem þegar hefur verið framleitt úr súráli sé í dag að stórum hluta endurunnið, m.a. í áldósir, nægir það ekki til að svara eftirspurninni.

Ísland er næststærsti álframleiðandi í Evrópu og sá níundi á heimsvísu. Hér á landi eru þrjú álver; í Hafnarfirði, á Reyðarfirði og í Hvalfirði. Árið 2017 framleiddu þau yfir 880 þúsund tonn af áli og hefur framleiðslan aldrei verið meiri. Til þess notuðu þau um 67% af allri raforku sem framleidd var í landinu.

„Áfram stefnir í heilbrigðan vöxt í eftirspurn áls upp á 4-5% á næstu árum,“ skrifaði framkvæmdastjóri Samáls, Pétur Blöndal, í lok síðasta árs. „Umframeftirspurn er eftir áli á heimsvísu á þessu ári [2018] og útlit fyrir að svo verði áfram á því næsta.“

Sá vinsælasti

Hér að ofan stóð að það væri að vissu leyti tilviljun að Red Bull-dós endaði á goggi álftarinnar. Líkurnar á því voru þó nokkrar ef litið er til vinsælda drykkjarins hér á landi sem og á heimsvísu og þar með fjölda dósa utan af honum sem er í umferð hverju sinni. Red Bull er vinsælasti orkudrykkur í heimi og einn sá allra vinsælasti hér á landi. Í fyrra voru seldar  6.790 milljónir dósa á heimsvísu og jókst salan um 7,7% frá árinu 2017. Mestur var vöxtur á mörkuðum á Indlandi (+30%), í Brasilíu (+22%) og Austur-Evrópu (+22%). Velta fyrirtækisins var eftir því og sú mesta hingað til í þriggja áratuga sögu þess. Hún jókst um 3,8% á milli ára, var 5,5 milljarðar evra í fyrra, eða 756 milljarðar króna.

Álftin með áldósina.
Álftin með áldósina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Red Bull er með höfuðstöðvar sínar í Austurríki og þar er drykkurinn framleiddur. Dósirnar eru framleiddar á sama stað sem fyrirtækið segir draga úr mengun sem annars hefði komið frá framleiðslunni. Þá sé reynt að flytja sem mest af vörum með lestum og skipum til að lágmarka enn frekar kolefnisfótsporið.

Dósirnar eru nú þynnri og 60% léttari en þær voru fyrir nokkrum árum. Þær eru sagðar 100% endurvinnanlegar en ekki er að finna upplýsingar á heimasíðu fyrirtækisins hvort þær sem Red Bull notar séu úr endurunnu áli. Við þeirri spurningu fengust heldur ekki svör frá Ölgerðinni sem flytur inn orkudrykkinn.

Hugsunarleysi vandamálið

„Það var ánægjulegt að sjá snögg viðbrögð starfsmanna Náttúrufræðistofnunar við að koma álftinni til bjargar og þá alúð sem henni er sýnd í Húsdýragarðinum,“ segir Birta Aradóttir, vörumerkjastjóri Red Bull hjá Ölgerðinni, í skriflegu svari við spurningum mbl.is. Hún segir að sem betur fer sé umhverfisvitund neytenda að aukast, „og að sjálfsögðu vonumst við, eins og allir aðrir, til að sóðaskapur á borð við þann að henda umbúðum eða öðru á víðvangi minnki með aukinni fræðslu og skilningi á náttúruvernd.“

Spurð hvort hægt sé að selja drykkinn í umbúðum sem brotni hraðar niður í náttúrunni svarar Birta að íslenskir neytendur, rétt eins og neytendur um heim allan, vilji umhverfisvænar umbúðir í auknum mæli og að áldósir séu með þeim allra umhverfisvænstu. „Skil til endurvinnslu [á Íslandi] eru líka með því hæsta sem þekkist í heiminum en hér er vandamálið frekar hugsunarleysi þess sem skildi umbúðirnar eftir í náttúrunni og þar geta allir tekið sig enn frekar á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert