WOW air gerir breytingar á leiðum sínum

Wow air gerir breytingar á áætlun sinni fyrir sumarið.
Wow air gerir breytingar á áætlun sinni fyrir sumarið. mbl.is/Eggert

WOW air hefur gert nokkrar breytingar á leiðakerfi sínu fyrir sumarið og næstu mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu eru breytingarnar gerðar til þess að ná sem bestri sætanýtingu í flugflotanum. Nýlega hafi fækkað í flota félagsins líkt og áður hafi komið fram. Meðal annars er sú breyting gerð að ekki verður flogið til Dusseldorf. 

Tíðni ferða til Alicante tekur breytingum

Tíðni flugferða frá Keflavík til Alicante hefur verið breytt og verður áætlunin eftirfarandi:

31. mars til 13. apríl. Flogið tvisvar sinnum í viku

16. apríl til 1. júní. Flogið þrisvar sinnum í viku.

2. júní til 17. september. Flogið fimm sinnum í viku.

18. september til 26. október. Flogið fjórum sinnum í viku.

Þá er daglegum flugferðum til Amsterdam fækkað úr tveimur í eina á dag, en frá 2. júní til 4. september verður ferðunum fjölgað í tíu á viku.

Flug til Dusseldorf fellt niður

Flug frá Keflavík til Dusseldorf verður fellt niður, en áður hafði verið gert ráð fyrir þremur flugferðum í viku. Samkvæmt upplýsingum frá WOW air er flug til Dusseldorf fellt niður bæði vegna markaðsástæðna og breytinga á flugflota flugfélagsins. Síðasta flug WOW air til Dusseldorf var 27. október á síðasta ári. 

Flugferðum frá Keflavík til Detroit verður fjölgað úr fjórum í fimm á viku á tímabilinu 6. júní til 18. september. 

Engar breytingar verða gerðar frá fyrri áætlun á tíðni flugferða frá Keflavík til Lyon og verður flogið fjórum sinnum í viku þangað. Flugtímabil tekur aftur á móti breytingum og verður frá 20. maí til 8. september.

Tíðni flugferða frá Keflavík til Malpensa-flugvallar í Mílanó verður aukin úr þremur ferðum í fjórar á viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert