Orðin gegnvot áður en hlaupið byrjaði

Anna Halldóra sæl á svip eftir að hafa lokið hlaupinu.
Anna Halldóra sæl á svip eftir að hafa lokið hlaupinu. Ljósmynd/Ágúst Sigurður Óskarsson

„Ég hef aldrei upplifað svona mikla stemmningu alla leiðina. Alla þessa 42 km var bara stappað af fólki beggja vegna og svo var tónlist allan tímann,“ segir Anna Halldóra Ágústsdóttir sem tók ásamt hópi Íslendinga þátt í Tókýómaraþoninu í gær. Hún hljóp á tímanum 3:10.46 og er þar með komin í hóp þeirra íslensku kvenna sem hlaupið hafa maraþon á hvað skemmstum tíma.

„Þetta er eitthvað í kringum 12. besti tími íslenskra kvenna í maraþoni frá upphafi,“ segir Anna Halldóra og er þetta hennar besti tími. Hún segist þó alls ekki hafa farið í hlaupið með það í huga að bæta sig. „Þetta var alls ekki planið. Ég var fyrst og fremst komin hingað til að njóta eftir allt þetta ferðalag,“ segir hún og kveður það yfirleitt vera markmið sitt. „Ef hausinn er hins vegar rétt skrúfaður á getur ýmislegt gerst.“

Anna Halldóra með föður sínum, Ágústi Sigurði Óskarssyni, sem studdi …
Anna Halldóra með föður sínum, Ágústi Sigurði Óskarssyni, sem studdi hana af hliðarlínunni. Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði að æfa hlaup þegar hún hætti í boltanum

Hún segir stemmninguna í hlaupinu ekki hafa liðið fyrir að úrhellisrigning var allan tímann. „Maður þurfti að vera mættur í startið hálftíma fyrir í hlaupafötunum og var orðinn gegnvotur áður en hlaupið byrjaði og svo var grenjandi rigning allan tímann.“ Anna Halldóra segir það þó ekki hafa komið að sök, þetta hafi verið „svona íslenskt veður“.

„Þetta er þriðja götumaraþonið mitt, en ég er samt tiltölulega ný í þessu,“ segir Anna Halldóra sem er 24 ára og æfði fótbolta áður en hlaupin tóku við. „Ég var alla mína æsku í fótboltanum og raunar til ársins 2016, en þá lagði ég takkaskóna alfarið á hilluna og fór að hlaupa.“ Anna Halldóra, sem er Valsari, segist vissulega hafa hlaupið eitthvað fyrir þann tíma. Það var hins vegar eftir að hún hætti í boltanum sem hún fór að einbeita sér að hlaupunum og hleypur hún nú með Val undir stjórn Ívars Trausta Jósafatssonar.

Hún er ekki sú eina í fjölskyldunni sem hleypur, því faðir hennar Ágúst Sigurður Óskarsson hleypur líka. Hann sótti um að komast í Tókýó-maraþonið en fékk ekki. Ágúst Sigurður lét það þó ekki aftra sér frá því að fylgja dóttur sinni út og hvatti hann Önnu Halldóru áfram af hliðarlínunni. „Hann er minn stuðningsmaður númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hún.

Anna Halldóra segir Tókýó-maraþonið vera frekar flatt undir fæti, en …
Anna Halldóra segir Tókýó-maraþonið vera frekar flatt undir fæti, en þó geti pínulitlar brekkur tekið á þegar hlaupið er maraþon. Ljósmynd/ Ágúst Sigurður Óskarsson

Stefnir á tvö maraþon til viðbótar í ár

Líkt og áður sagði er þetta þriðja maraþon Önnu Halldóru, en hún hljóp Amsterdam-maraþonið árið 2017, Lissabon-maraþonið í fyrra og hljóp svo Laugaveginn síðasta sumar.

Hún er líka hvergi nærri hætt og eru tvö maraþonhlaup til viðbótar á dagskrá þetta árið. „Ég er skráð í Berlínarmaraþonið í september, og svo á ferðadaginn hingað út til Tókýó fékk ég að vita að ég hefði komist inn í New York-maraþonið líka, sem er í nóvember,“ segir Anna Halldóra og játar að hún sé að safna stóru hlaupunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert