Ráðherra gangi erinda stórkaupmanna

Framsýn á Húsavík lýsir yfir vonbrigðum með frumvarp sjávarútvegs- og …
Framsýn á Húsavík lýsir yfir vonbrigðum með frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir vonbrigðum með frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að heimilaður verði innflutningur á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum,“ segir í ályktun stjórnar Framsýnar sem samþykkt var á stjórnarfundi í kvöld.

„Sú hætta sem stafar af slíkum gjörningi ætti að vera öllum ljós, enda hafa okkar helstu sérfræðingar í smitsjúkdómum og sýklafræðum ítrekað varað við aukinni hættu á sýklalyfjaónæmi og bent á að það væri mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag,“ segir í ályktun stjórnarinnar. 

„Þá vita allir sem vita vilja að íslenskur landbúnaður er mikilvægur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og viðhalda byggð í landinu. Gæði íslensks landbúnaðar eru óumdeild, þau hafa sérstöðu, jafnvel í alþjóðlegu samhengi þar sem tekist hefur að verja búfjár­stofna landsins fyrir utanaðkomandi sjúk­dóm­um,“ segir þar enn fremur.

Skora á ráðherra að beita sér fyrir breytingum á EES

Stjórn Framsýnar telur að verði frumvarpið að veruleika jafngildi það „fullkominni uppgjöf“ í baráttu Íslendinga fyrir því að verja lýðheilsu þjóðarinnar og íslenskra búfjárstofna.

„Framsýn stéttarfélag mótmælir því harðlega að stjórnvöld gangi jafn augljóslega erinda fjársterkra stórkaupmanna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar og taki viðskiptahagsmuni fram yfir matvælaöryggi og lýðheilsu. Félagið skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að samið verði um breytingar á EES-samningnum sem heimila íslensku þjóðinni að viðhalda sérkennum íslensks landbúnaðar og árétta þar með skyldur stjórnvalda  að viðhalda matvælaöryggi þjóðarinnar. Hreinleikinn er aðalsmerki íslensks landbúnaðar og þannig viljum við hafa það um ókomna tíð,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert