Vasaþjófar herja á ferðamenn

Vasaþjófar herjuðu á ferðamenn við Gullfoss og á fleiri fjölsóttum …
Vasaþjófar herjuðu á ferðamenn við Gullfoss og á fleiri fjölsóttum ferðamannastöðum á Suðurlandi um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæmi eru um að ferðamenn hafi orðið fyrir barðinu á vasaþjófum á fjölsóttum ferðamannastöðum á Suðurlandi um helgina. Baldvin Jónsson leiðsögumaður varaði við vasaþjófunum á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar í morgun. Þjófarnir nota meðal annars þá aðferð að gefa sig að fólki og bjóða því að taka myndir af því og ræna það á meðan samtalið fer fram.

Vasaþjófnaður ekki þekkst hér á landi til þessa

Ásdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Kaffi Gullfoss, staðfestir í samtali við mbl.is að vasaþjófar hafi verið fyrirferðarmiklir við fossinn og í kringum kaffihúsið um helgina. „Já, því miður. Ég hef verið viðloðandi frá því að þetta byrjaði hérna fyrir tuttugu árum og ég hef aldrei orðið vör við þetta.“  

Ásdís segir að erfitt sé að áætla hversu stórfelldur þjófnaðurinn var en hún segir að dæmin hafi verið fjölmörg. Leiðsögumenn og ferðaþjónustuaðilar taka undir færsluna á Baklandi ferðaþjónustunnar og staðfestir Breki Logason hjá Your Day Tours að ferðamenn á þeirra vegum orðið fyrir barðinu á vasaþjófum.

„Það var meira um að verið var að reyna að að stela af ferðamönnum en ég veit ekki hversu mörgum tókst að ná einhverju,“ segir Ásdís. Ekki tókst hins vegar að bera kennsl á þjófana og hefur þjófnaðurinn ekki verið tilkynntur til lögreglu, svo Ásdís viti af.

„Ég reyndi það ekki einu sinni,“ segir Ásdís, sem hefur reynslu af því að lögreglan á Suðurlandi hafi ekki mannafla til að sinna málum tengdum þjófnaði. „Það hafa verið stórfelldir þjófnaðir úr búðinni, þar sem þjófavörnin er klippt af rándýrum flíkum, en þeir hafa ekki tíma til að sinna svona.“   

Gullfoss er meðal vinsælustu viðkomustaða ferðamanna hér á landi.
Gullfoss er meðal vinsælustu viðkomustaða ferðamanna hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íhugar að setja upp öryggisgæslu við svæðið

Það er hins vegar nauðsynlegt að mati Ásdísar að grípa til aðgerða. „Við höfum rætt það hérna hvort við þyrftum að hafa manneskju eða mannskap úti til að vara fólk við. Ég hef því miður ekki mannskap í það í dag, en ef þetta fer að verða virkilega áberandi þá verður að vera öryggisvörður á svæðinu. Ekki viljum við láta ræna gestina okkar.“

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi fengið veður af vasaþjófunum um helgina. „En þetta hefur ekki komið inn á borð hjá okkur sem rannsóknarefni þar sem brotaþolinn hefur haft samband við okkur, enn sem komið er.“

mbl.is