Fundað stíft í Karphúsi

Samninganefnd Alþýðusambandsins á fundi.
Samninganefnd Alþýðusambandsins á fundi. mbl.is/​Hari

Áfram eru stíf fundahöld undir stjórn ríkissáttasemjara í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands, samflots iðnaðarmanna og Landssambands íslenskra iðnaðarmanna.

Boðaðir eru daglegir fundir fram á föstudag en að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara eru vikulokin engin endastöð í viðræðunum heldur verður þeim haldið áfram eftir þörfum.

Ríkissáttasemjari ákvað í gær að boða samninganefndir í deilu SA og verkalýðsfélaganna fjögurra sem slitu viðræðum á dögunum og undirbúa nú atkvæðagreiðslur um vinnustöðvanir til sáttafundar klukkan 10 á fimmtudag. Þá verða liðnir 14 dagar frá því viðræðunum var slitið en ríkissáttasemjara ber að boða sáttafundi í deilum eigi sjaldnar en á fjórtán daga fresti.

Fyrsta verkfall Eflingar á hótelum og gististöðum er boðað nú á föstudag. Samtök atvinnulífsins telja boðun þess andstæða lögum. Málið var tekið fyrir í Félagsdómi í gær og er búist við dómi á morgun, miðvikudag.

Miðlunartillaga ekki rædd

Samningar á almenna vinnumarkaðnum hafa nú verið lausir í níu vikur. Ríkissáttasemjari hefur samkvæmt vinnulöggjöfinni heimild til að leggja fram miðlunartillögu til að leysa vinnudeilur hafi sáttaumleitanir ekki borið árangur. Slíka tillögu ber að leggja beint undir atkvæði félagsmanna til samþykktar eða synjunar. Í umfjöllun um kjaraviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag segir Bryndís að ekki hafi komið til tals að leggja slíka tillögu fram núna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert