„Stöndum undir okkar hlutverki“

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ýmsar skoðanir komu fram í umræðum um skýrslu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um Schengen-samstarfið sem kynnt var fyrir um tveimur vikum og rædd var á Alþingi í dag. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að alvarlegir veikleikar eru á stjórnskipulagi landamæraeftirlits hér á landi. Mannafla skortir til að framkvæmd samstarfsins hér á landi uppfylli gæðakröfur og bæta þarf búnað og áhættugreiningar við eftirlit við landamærin.

Sigríður segir að þó að víða sé pottur brotinn uppfylli Ísland engu að síður skuldbindingar sínar á þessu sviði.

„Við vissum vel af þessum annmörkum, t.d. að við séum ekki búin að taka alla gagnagrunna í notkun, en við höfum undanfarið sett mikið fé í að efla landamæravörslu og fjölga landamæravörðum. Þetta helst í hendur við þróun löggæslunnar. Það hefur verið mikil þróun í þessu samstarfi undanfarin ár,“ segir Sigríður. „Ný tól og tæki hafa verið tekin í notkun og nýir gagnagrunnar og tölvukerfi. Öll ríki eru að innleiða ný vinnubrögð, Ísland þar með talið og öll ríkin undirgangast svona úttektir.“

Ísland langt frá því að uppfylla skuldbindingar sínar

15 þingmenn úr öllum flokkum, auk Sigríðar, tóku til máls þegar umræða um skýrsluna hófst á þingfundi í dag. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist ekki vera sammála ráðherra um að úttektin hefði almennt komið vel út. „Aðgerðalisti stjórnvalda eftir úttektina er gríðarlega umfangsmikill og Ísland er langt frá því að uppfylla skuldbindingar sínar sem þátttakandi í þessu samstarfi,“ sagði hann. „Það að Ísland uppfylli ekki gæðakröfur og að svo alvarlegir annmarkar hafi komið í ljós um framkvæmd landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli er auðvitað mjög alvarlegt mál,“ sagði Logi og velti fyrir sér hvort málaflokkurinn hefði setið á hakanum. 

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jafnvægisleikur milli öryggis og almannafrelsis

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagði augljóst að Schengen-samstarfið væri eitt af  mikilvægustu samstarfsverkefnum sem Ísland tæki þátt í. „Það tryggir okkur víðtækt ferðafrelsi út um alla Evrópu ásamt því að tryggja almannaöryggi með því að sinna mikilvægu hlutverki með fólki sem gæti ógnað friði. Þetta er jafnvægisleikur milli öryggis og almannafrelsis,“ sagði Smári.

Smári McCarthy.
Smári McCarthy. mbl.is/Árni Sæberg

Hann sagði að þeir sem fyndu útlendingum allt til foráttu leituðu að leiðum til að útvíkka eftirlitshlutverk Schengen. Það mætti ekki verða. Ætti þetta jafnvægi að nást þyrfti fleira fólk, hærri fjárveitingar og leggja meiri áherslu á að laga þau raunverulegu vandamál sem væru til staðar bæði innan landamæraeftirlitsins og heimsbyggðinni allri. „En ekki að útvíkka eftirlitsiðnaðinn og takmarka frelsi fólks,“ sagði Smári.

Ekki eina leiðin í landamæraeftirliti

Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins sagðist þeirrar skoðunar að Schengen væri ekki eina leiðin í landamæraeftirliti og að Ísland fengi falleinkunn í skýrslunni. „Það er verið að setja gríðarlega fjármuni í þetta kerfi. Á síðustu fjárlögum voru þetta 836 milljónir og í fjármálaáætlun 2019-2022 eru þetta 3,5 milljarðar króna,“ sagði Birgir. „Það eru heilmiklir peningar og ég hefði viljað sjá þá einhvers staðar annars staðar. Ekki væru öll ríkin, sem ættu aðild að EES-samningnum, aðilar að Schengen. „Og þá veltir maður því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að við séum í því,“ sagði Birgir.

Birgir Þórarinsson.
Birgir Þórarinsson.

Öll ríkin áfram um að vera í samstarfinu

Spurð um þessa gagnrýni þingmannanna segir Sigríður að landamæraeftirlit sé vissulega með ýmsum hætti. Sum þeirra landa, sem ekki séu í Schengen eins og t.d. Bretland, hafi úrræði á borð við leyniþjónustur, sem ekki séu til staðar hér. „Öll ríkin eru mjög áfram um að vera áfram í samstarfinu,“ segir Sigríður. „Við stöndum fyllilega undir okkar hlutverki. Þetta kostar peninga, en það þarf að hafa í huga að við erum að fá meira fé úr þessu samstarfi en við leggjum í það og það hefur gert okkur kleift að styrkja eftirlitið og minnka ýmsan kostnað, m.a. við meðferð hælisumsókna.“

Spurð hvaða upphæðir sé um að ræða segir Sigríður að framlag Íslands inn í Schengen-samstarfið sé um ein milljón evra á ári. „Árin 2014-2020 fengum við aftur á móti um 16,5 milljónir evra út úr því,“ segir hún.

Sigríður segir að grannt sé fylgst með þróun mála, bæði í ráðuneytinu og hjá embætti ríkislögreglustjóra. „Það er mikil áhersla lögð á að við náum að uppfylla þau tilmæli sem að okkur er beint og við þurfum að halda vel á spöðunum til að svo megi verða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert