Taka mislingasmiti „af stórhug“

Börn á leikskóla.
Börn á leikskóla. mbl.is/​Hari

Foreldrar barna á leikskólanum Hnoðraholti í Garðabæ hafa tekið fregnum af mislingasmiti eins af börnunum úr leikskólanum af „miklum stórhug“. Þetta segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar.

Skólinn fylgir hugmyndafræði Hjallastefnunnar.

Annað barnanna sem smitaðist nýlega af mislingum hérlendis er 18 mánaða og hefur því ekki verið bólusett. Á leikskólanum eru 20 börn á aldrinum 12 til 18 mánaða sem ekki hafa verið bólusett. Að sögn Þórdísar Jónu var strax haft samband við sóttvarnarlækni þegar upp komst um smitið.

Búið er að ræða við alla foreldra og senda þeim upplýsingar um að leita sér aðstoðar ef grunur kemur upp um að barnið þeirra sé smitað. Hafa þeir verið beðnir um að hringja í símanúmerið 1700.

„Foreldrarnir hafa tekið þessu af miklum stórhug. Það eru allir sammála um að reyna að gera allt til að hefta útbreiðslu,“ segir Þórdís Jóna og tekur fram að engin hræðsla hafi gripið um sig.

Þeim börnum sem ekki hafa verið bólusett hefur verið gert að dvelja heima hjá sér næstu tvær og hálfa vikuna. Lögð er áhersla á að þau séu ekki í samneyti við önnur börn. Börn sem eru bólusett mæta áfram í skólann.

Gert er ráð fyrir að sjúkdómurinn komi fram innan þriggja vikna.

Þórdís Jóna bendir á að barnið sem smitaðist hafi ekki verið á sömu deild og hin börnin sem ekki voru bólusett. „Það er margt sem vinnur með okkur,“ segir hún og bætir við að bæði börnin sem hafi smitast hérlendis af mislingum séu á batavegi. 

Spurð hvernig starfsmönnum líði segir hún ekkert annað hægt að gera en að taka málinu af æðruleysi, vona það besta og fylgja öllum fyrirmælum frá sóttvarnarlækni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert