Tímabært að afnema stimpilgjaldið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill afnema stimpilgjöld af íbúðakaupum …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill afnema stimpilgjöld af íbúðakaupum einstaklinga. mbl.is/hari

„Það er kominn tími á að þessi skattur verði afnuminn með öllu á einstaklinga,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti flutningsmaður frumvarps um afnám stimpilgjalda á íbúðakaup einstaklinga sem tekið verður til umræðu á Alþingi í dag. Þetta er þó ekki eina frumvarpið um afnám stimpilgjalda sem þar verður rætt.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, mun nefnilega ásamt öðrum þingmönnum flokksins, þeim Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni og Þorgerði K. Gunnarsdóttur, leggja fram frumvarp um afnám stimpilgjalda á fólk og fyrirtæki í áföngum. Mæla þau með að stimpilgjald verði nú helmingi lægra en það er í dag og svo verði það afnumið með öllu 1. janúar 2020.

Í frumvarpi Áslaugar Örnu, sem einnig er lagt fram af sjálfstæðisþingmönnunum Óla Birni Kárasyni, Vilhjálmi Árnasyni, Páli Magnússyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Bryndísi Haraldsdóttur og Brynjari Níelssyni, er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið.

Í dag ber einstaklingum almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, leggur fram frumvarp um afnám stimpilgjalda …
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, leggur fram frumvarp um afnám stimpilgjalda á einstaklinga og fyrirtæki í áföngum. mbl.is/Árni Sæberg

Afnema úreltan skatt

Áslaug Arna segir málið fyrst og fremst snúast um að afnema úreltan skatt og létta á fólki við fasteignakaup. „Þessi skattur leggst frekar þungt á fólk,“ segir hún og kveður alveg muna um hundraðþúsundkallana þegar fólk er að safna sér fyrir íbúð. „Það er þannig að flestir vilja eignast eigið húsnæði,“ segir hún og vísar í skýrslu Íbúðalánasjóðs sem sýnir að um 90% þeirra sem eru á leigumarkaði vilja eignast eigið íbúðarhúsnæði. „Með þessu getum við skapað heilbrigðara umhverfi á fasteignamarkaði.“

Áslaug Arna segir þetta vissulega ekki vinna á framboðsvanda fasteigna, en eitthvað sé þó mögulega að birta til í þeim efnum. „Það munar hins vegar um þetta bæði fyrir þá sem eru að safna sér fyrir fyrstu íbúð og þá sem þurfa að færa sig.“

Frumvarpið er nú lagt fram í fjórða skipti, en það var áður flutt á 146., 147. og 148. löggjafarþingi. Áslaug Arna segist bjartsýn að það komst í gegn nú og bendir á að síðustu þing hafi verið frekar stutt og frumvarpið því ekki alltaf komist í umræðu.  

Þarf mögulega að gerast í skrefum

„Það mun kosta ríkið um fjóra milljarða að afnema þetta, en ég held að það sé kominn tími á að þessi skattur sem leggst frekar þungt á fólk, verði afnuminn með öllu á einstaklinga,“ segir hún. „Það þarf kannski að taka þetta í nokkrum skrefum og það væri alveg skiljanlegt, en ég held að það sé mikilvægt að við séum að hugsa hvernig við getum létt til með fólki á sama tíma og úrelt skattheimta er afnumin.“

Spurð hvort hún finni fyrir samhljómi milli þingmanna ólíkra flokka um frumvarpið kveðst hún telja erfitt að mæla gegn því að stimpilgjaldið sé afnumið. „Það eru þó einhverjir flokkar á þingi sem mæla alltaf gegn lækkun skatta, sama í hvaða formi það er og vilja frekar grípa til annarra bútasaumsaðgerða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert