Átti ekki von á því að fá mislinga

Svanur Freyr Jóhannsson.
Svanur Freyr Jóhannsson. Ljósmynd/Aðsend

Svanur Freyr Jóhannsson, sem býr á Reyðarfirði og er einn þeirra fjögurra sem vitað er til að hafi smitast af mislingum hérlendis undanfarið, segir líðan sína ljómandi góða og að hann sé allur að hressast en hann er heima hjá sér í sóttkví.

Hann var í flugvél Icelandair sem lenti hérlendis 14. febrúar og fann hann ekki fyrir neinum slappleika eftir flugið. Það var ekki fyrr en síðasta fimmtudag sem honum leið eins og hann væri að fá flensu. Líðanin versnaði svo á föstudaginn, þegar hann var enn í vinnunni. Þegar heim var komið fann hann að hann var kominn með hita og fór beint upp í rúm. „Ég bara svitnaði og fraus til skiptist alla nóttina,“ segir Svanur Freyr í samtali við mbl.is.

Leit út eins og blettatígur

Allan laugardaginn og sunnudaginn var hann „alveg að drepast“ og þegar hann leit í spegil á mánudaginn leit hann út „eins og einhver blettatígur“.

Þá mundi hann eftir því að hafa fengið bréf frá sóttvarnarlækni vegna þess að hann hafði verið í flugvélinni þar sem annar maður smitaður af mislingum var um borð. Svanur Freyr hafði samband við sóttvarnarlækni sem sagði honum að ræða strax við heilsugæsluna. Þaðan kom maður heim til hans og tók sýni. Niðurstaða kom daginn eftir um að hann væri með mislinga.

„Ég átti ekkert von á því að fá neina mislinga þegar ég fékk þetta bréf af því ég hélt að ég væri bólusettur og að allt væri í toppstandi,“ segir hann og telur að hann hafi aðeins fengið eina sprautu við mislingum þegar hann var 18 mánaða en ekki tvær eins og hann átti að fá.

Börn af leikskólanum send heim 

Svanur Freyr settist niður með starfsmanni heilsugæslunnar eftir að niðurstaðan var ljós þar sem hann rakti ferðir sínar um allt sveitarfélagið en hann er ávallt mikið á ferðinni starfsins vegna. Meðal annars hafði hann farið inn á leikskóla, á veitingastaði á Egilsstöðum, verið í Fljótsdal og um borð í flutningaskipi hjá Samskipum. Dagheimilið sem hann nefnir er á Reyðarfirði og kom hann þar stuttlega við til að huga að rafmagninu þar en verið er að breyta leikskólanum. Hann fór ekki inn á neina deild en engu að síður skilst honum að þau börn sem ekki voru bólusett hafi verið send heim til sín.

Reynir að horfa á björtu hliðarnar

Svanur Freyr er þriggja barna faðir. Börnin hafa öll verið bólusett en konan hans ekki. Hún fékk mislinga þegar hún var lítil. Hann segir allt vera á réttri leið og grínast með að núna fái hann ágætishvíld til að sinna verkefnum sem hafa safnast upp á heimilinu. „Frúin er ægilega ánægð. Ég held hún sé að reyna að fara í næstu málningarverslun. Ég er nú að vona að það sé búið að loka henni eins og flestu öðru hér,“ segir hann ég léttum dúr og kveðst reyna að líta á málin með björtum augum þrátt fyrir alvarleikann sem getur legið að baki mislingasmiti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert