„Misboðið“ fyrir hönd borgaranna

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég lít það mjög alvarlegum augum og ég ætla ekkert að fara út í lögfræðina í því, hvað sem líður öllu frelsi fjölmiðla […] til upplýsingagjafar og til að miðla upplýsingum, þá er það bara mjög alvarlegt í ljósi þeirra mjög svo viðamiklu rannsóknarúrræða sem þarna er verið að grípa til ef það reynist rétt vera að starfsmenn hins opinbera eru fyrir fram búnir að upplýsa um stað og stund slíkra athafna. Ég segi þetta líka til framtíðar, því það verður bara að vera alveg ljóst að svona gera menn ekki.“

Þetta sagði Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins í morgun. Þangað var hann kallaður til þess að ræða lög um gjaldeyrismál og stjórnsýslu Seðlabanka Íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits.

Eins og fram hefur komið sendi Tryggvi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf á mánudag, þar sem hann sagði meðal annars tilefni til þess, á grundvelli nýrra upplýsinga sem honum hefðu borist frá ónafngreindum aðila sem nýtur verndar uppljóstrara samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis, að skoða atburðarásina sem leiddi til þess að frétta- og myndatökumenn Ríkisútvarpsins voru komnir að skrifstofum Samherja hf. bæði á Akureyri og í Reykjavík að morgni 27. mars árið 2012 þegar gjaldeyriseftirlitið framkvæmdi húsleit.

Í bréfinu og á fundinum í morgun setti Tryggvi einnig spurningarmerki við það að Seðlabankinn sjálfur hefði birt fréttir af rannsókn á hendur Samherja sama dag og húsleitin var framkvæmd.

„Það að fara fram með fréttir og frásagnir af málum þegar málin eru á rannsóknarstigi og verið er að beita rannsóknarúrræðum, er bara mjög vafasamt og vandmeðfarið,“ sagði hann við nefndarmenn.

„Texti sem að þú lætur ekki fram hjá þér fara“

Umboðsmaður steig fast til jarðar á fundinum í morgun, er hann ræddi um þá ákvörðun gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands að beita stjórnvaldssektum á hendur Samherja hf. árið 2016, þrátt fyrir að ríkissaksóknari hefði áður komið þeirri afstöðu á framfæri við Seðlabankann, þegar árið 2014, að ekki væru lagaheimildir til staðar fyrir þeim aðgerðum.

„Það er nú einfaldlega þannig að á opinberum stjórnvöldum hvílir frumkvæði og skylda til þess að haga málum þannig að það sé farið eftir lögum. Og þegar að æðsti handhafi ákæruvalds í landinu hefur sent frá sér texta með þeim hætti sem ég hef sýnt ykkur, þá hefði ég haldið að allir löglærðir einstaklingar, að minnsta kosti, gerðu sér grein fyrir því að það er texti sem að þú lætur ekki fram hjá þér fara,“ sagði Tryggvi við nefndarmenn á fundinum í morgun.

Kann að vera misboðið fyrir hönd borgara

Tryggvi var spurður að því af alþingismanninum Óla Birni Kárasyni hvort honum væri misboðið vegna framgöngu Seðlabanka Íslands í málinu.

„Ég er í því hlutverki að reyna að gæta að því að það sé réttilega staðið að málum gagnvart borgurunum. Það hvort mér er misboðið í þeim samskiptum sem ég þarf að eiga við stjórnvöld í þessu hlutverki, það læt ég liggja á milli hluta, en það kann að vera að mér sé misboðið fyrir hönd þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem þarna hafa átt í hlut, það er í raun og veru aðalatriðið,“ sagði umboðsmaður þá.

Nefndarmenn beindu spurningum sínum til umboðsmanns Alþingis í morgun.
Nefndarmenn beindu spurningum sínum til umboðsmanns Alþingis í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Hann gagnrýndi einnig, eins og hann hefur raunar áður gert, ummæli sem seðlabankastjóri hefur látið eftir sér hafa um mál Samherja þar sem látið er að því liggja að þrátt fyrir að málið hafi verið látið niður falla sé ekki þar með sagt að rannsóknin hafi verið tilhæfulaus.

Umboðsmaður segir að þrátt fyrir að mál séu felld niður á lagatæknilegum atriðum þurfi fulltrúar ríkisins „bara að sætta sig við það“ að málið sem farið hafi verið í sé ónýtt.

„Þá fer maður ekki fram með fullyrðingar um það að hvað sem því líður sé bara allsendis óvíst hvort viðkomandi hafi verið saklaus,“ sagði Tryggvi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert