Panta meira bóluefni gegn mislingum

Gripið hefur verið til þess að ráðs að panta meira …
Gripið hefur verið til þess að ráðs að panta meira bóluefni gegn mislingum eftir að fjórir einstaklingar hafa greinst með mislinga hér á landi síðustu vikur. AFP

Læknavaktinni hafa borist fjölmörg símtöl í tengslum við mislinga frá því embætti landlæknis greindi frá því í gær að fjórir einstaklingar hafi greinst með mislinga á Íslandi síðustu vikur. Þá hafa heilsugæslur lagt fram pöntun á bóluefni gegn mislingum þar sem farið er að ganga á birgðir sem til eru. 

Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, staðfestir í samtali við mbl.is að fjöldi símtala hafi borist í vaktsíma Lækavaktarinnar, 1700, eftir að landlæknir ráðlagði fólki sem telur sig eða börn sín geta verið veik af mislingum að hringja en ekki koma á næstu heilsugæslu. Gunnar segir að símtölin hafi byrjað að berast strax í gærkvöldi, en í gær voru foreldrar þeirra barna sem gætu hafa orðið fyrir smiti látnir vita.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfestir í samtali við mbl.is að fleiri smit hafi ekki greint frá því í gær en of snemmt sé að segja til um hvort búið sé að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Fulltrúar Læknavaktarinnar og heilsugæslu funda í dag um frekari viðbragðsáætlun vegna mislingasmits. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er að panta meira bóluefni. Alla jafna er til tveggja mánaða lager af bóluefni gegn mislingum en Þórólfur sagði í samtali við RÚV í morgun að búið væri að panta meira bóluefni til að bregðast við ástandinu. Sömuleiðis hefur fólki sem ekki er í forgangi verið hafnað um bólusetningu.

Bólusetning gegn mislingum miðast við 18 mánaða aldur en í ljósi aðstæðna geta foreldrar látið bólusetja börn sín gegn mislingum allt niður í sex mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert