Telur vert að kanna upplýsingagjöf SÍ

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Tryggvi Gunnarsson, …
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, er hér fyrir miðju. mbl.is/Árni Sæberg

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir í bréfi til forsætisráðherra sem gert var opinbert á vef embættis hans í morgun, að hann telji tilefni til þess að kallað verði eftir hver var í raun hlutur starfsmanna gjaldeyriseftirlits Seðlabanks í því að veita starfsmanni Ríkisútvarpsins upplýsingar um fyrirhugaða húsleit gjaldeyriseftirlitsins hjá Samherja 27. mars 2012.

„Þá tel ég þörf á að ganga eftir því við Seðlabanka Íslands hver hafi tekið ákvörðun um að veita upplýsingarnar og hver hafi verið aðkoma og vitneskja yfirstjórnar bankans um þessi samskipti við Ríkisútvarpið,“ segir einnig í bréfi umboðsmanns Alþingis, sem stílað var á forsætisráðherra á mánudag.

Tryggvi vísar í bréfi sínu til þess sem fram kom í bókinni Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason, sem kom út í árslok 2016, um að starfsmenn Ríkisútvarpsins hefðu fengið upplýsingar um fyrirhugaða húsleit. Hann segir að honum hafi nýlega borist frekari upplýsingar um málið, frá uppljóstrara sem njóti verndar, sem gefi tilefni til að kanna upplýsingagjöf Seðlabankans frekar.

Tryggvi situr nú fyrir svörum nefndarmanna á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, þar sem hann ræðir málefni gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, nánar tiltekið lög um gjaldeyrismál og stjórnsýslu Seðlabanka Íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits. Fylgjast má með fundinum í beinni útsendingu á vef Alþingis.

Umboðsmaður segir einnig í bréfi sínu til forsætisráðherra að það orðalag í bréfi Más Guðmundssonar til forsætisráðherra, sem ritað var í lok janúar, að húsleitin hjá Samherja hefði haft „töluverð fælingaráhrif“ veki upp álitamál um „hvaða tilgangur hafi í raun búið að baki því að veita ofangreindar upplýsingar um húsleitina og birta og dreifa frétt um hana með þeim hætti sem gert var í þessu máli,“ en auk þess sem frétta- og myndatökumenn RÚV voru mættir á staðinn um leið og aðgerðir hófust í húsakynnum Samherja birti Seðlabankinn sjálfur frétt um aðgerðirnar á íslensku og ensku sama dag og þær fóru fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert