Hlakkar til að fara í verkfall

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, félagsdómur.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, félagsdómur. mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var sigurreif eftir dóm Félagsdóms um að boðun stéttarfélagsins á verkfalli hótelstarfsmanna á morgun hafi verið lögleg. Hún hlakkar mikið til að fara í verkfall.

„Ég er mjög ánægð með að geta farið í verkfall. Ég hlakka mikið til,“ sagði hún eftir að dómurinn féll og bætti við að hann hefði mikla þýðingu. „Morgundagurinn er fyrsti dagurinn í mikilvægri upprisu láglauna- og verkakvenna á Íslandi sem enginn hefur í raun tekið að sér að berjast neitt sérstaklega fyrir. Enginn hefur tekið að sér að gæta sérstaklega hagsmuna okkar,“ sagði hún við blaðamann mbl.is.

„Það er augljóst að við þurfum að troða okkur í framvarðasveit verkalýðsbaráttunnar og það er það sem við erum að gera. Við látum ekki staðar numið þar heldur ætlum við svo sannarlega að berjast þangað til við fáum það sem við eigum inni hjá íslensku samfélagi.“

Klukkan 10 í fyrramálið í Gamla bíói hefst dagskrá fyrir þá sem verða í verkfalli. „Ég hvet alla til að mæta þangað. Þar getur fólk skráð sig inn til þess að fá greiðslur úr verkfallssjóði og jafnframt verður dagskrá í gangi.“

Aðspurð segir hún að dómurinn hafi ekki komið sér á óvart. „Ég var mjög sannfærð um að þetta yrði niðurstaðan en ég er gríðarlega glöð.“

mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert