Fagna frumkvæði Íslands í mannréttindaráðinu

Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsdeild Amnesty International fagnar frumkvæði Íslands, sem fer fyrir sameiginlegri yfirlýsingu á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna vegna mannréttindabrota í Sádi-Arabíu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Amnesty.

36 ríki standa að yfirlýsingunni og er þetta í fyrsta skipti sem Sádi-Arabía er beitt slíkum þrýstingi í ráðinu, en Ísland tók þar sæti í byrjun árs eftir að Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu.  

Þetta er dæmi um það hvernig ríki geta, með samstilltu átaki, brugðist við alvarlegum brotum ríkja á mannréttindum borgara sinna,“ er haft eftir Önnu Lúðvíksdóttur, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty International.

Segir hún framgöngu Íslands sýna að stærð ríkja skipti ekki máli varðandi áhrif í mannréttindaráðinu, heldur hugsjónir og þor. „Það hefur verið brotið blað í sögu mannréttindaráðsins, þar sem eitt af hinum stóru voldugu ríkjum hefur nú fengið á sig gagnrýni fyrir þau grófu mannréttindabrot sem þar eru framin. Við vonum að þetta leiði til þess að ríki sem sitja í mannréttindaráðinu veigri sér ekki við að sameinast um gagnrýni á önnur voldug ríki, þar sem er vitað að gróf mannréttindabrot fá að þrífast,“ segir Anna.  

Í yfirlýsingunni, sem flutt var í gær fimmtudaginn 7. mars, er framganga Sádi-Arabíu í mannréttindamálum gagnrýnd harðlega og meðal annars vikið að því að baráttufólk fyrir mannréttindum sé handtekið og látið sæta fangelsisvist án dóms og laga. Morðið á blaðamanninum Jamal Kashoggi var ennfremur fordæmt og þá voru stjórnvöld Sádi-Arabíu hvött til að sleppa baráttufólki fyrir mannréttindum úr haldi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert