Liðsinntu mörg hundruð leigjendum

88% þeirra sem höfðu samband við Leigjendaaðstoðina á síðasta ári …
88% þeirra sem höfðu samband við Leigjendaaðstoðina á síðasta ári voru leigjendur, en 11% voru leigusalar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna bárust alls 1.095 erindi árið 2018 og hafði milligöngu í 22 málum, sem flest lutu að endurgreiðslu á tryggingarfé, eða 10 mál. Þau mál fóru öll fyrir kærunefnd húsamála sem úrskurðaði leigjendum í hag að öllu leyti eða að hluta.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Leigjandaaðstoðarinnar, sem kom út í dag, en frá árinu 2011 hafa Neytendasamtökin starfrækt sérstaka leigjendaaðstoð á grundvelli samnings við velferðarráðuneytið, sem hefur verið endurnýjaður árlega.

Samtökin halda úti vefsíðu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um réttindi og skyldur leigjenda og eru jafnframt með símatíma tvisvar í viku, en samkvæmt ársskýrslunni koma langflest erindanna inn símleiðis.

88% þeirra sem höfðu samband við Leigjendaaðstoðina á síðasta ári voru leigjendur, en 11% voru leigusalar. „Hlutfall leigusala hefur hækkað nokkuð milli ára sem verður að teljast jákvætt enda er það tilfinning starfsmanna Leigjendaaðstoðarinnar að í flestum tilfellum er leigusalar hafa samband sé það til að fá upplýsingar um réttarstöðu sína í þeim tilgangi að breyta rétt samkvæmt húsaleigulögum,“ segir í ársskýrslunni.

Tvö dæmi um mál leigjenda sem voru aðstoðaðir

Í árskýsslunni nefna samtökin tvö dæmi um mál sem hafa borist inn á þeirra borð á árinu. Í öðru þeirra hafði ungur leigjandi, nýorðinn lögráða og að stíga sín fyrstu skref á leigumarkaði, skrifað undir úttektarskjal frá starfsmanni leigusala án þess að átta sig á efni þess.

Í ljós kom að hann hafði samþykkt áætlaðan þrifa- og málningarkostnað að fjárhæð 172.000 kr. Leigjendaaðstoðin annaðist milligöngu í máli leigjanda og komst í kjölfar á samkomulag milli aðila með umtalsvert lægri kostnaði, samkvæmt því sem segir í skýrslunni.

„Annað mál varðaði erlendan leigjanda sem fór ásamt fjölskyldu sinni í sumarfrí til heimalands síns. Þegar að heim var komið barst honum tilkynning frá leigusala þess efnis að eignin yrði seld á nauðungarsölu og að hann þyrfti að fara út sem allra fyrst. Eftir að leigjandi hafði skilað eigninni hafnaði leigusali því að endurgreiða honum tryggingarféð. Ítrekaðar milligöngutilraunir skiluðu ekki tilætluðum árangri og Leigjendaaðstoðin undirbjó málsgögn fyrir kærunefnd húsamála sem komst að þeirri niðurstöðu að leigusala bæri að endurgreiða tryggingarféð að fullu,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert