Nær 40% kvenna orðið fyrir ofbeldi

Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert

Nær 40% íslenskra kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Áreitni á vinnustöðum er algeng og breytileg eftir vinnuumhverfi. Ofbeldi er það áfall sem felur í sér mestar líkur á áfallastreituröskun. Þetta eru á meðal fyrstu niðurstaðna í rann­sókn­inni Áfalla­saga kvenna og var kynnt í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningu í dag.

Þessar niðurstöður eru samhljóma öðrum sambærilegum rannsóknum á þessu sviði. „Samt sem áður ræðst þetta háa hlutfall illa að manni,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands þegar hún kynnti niðurstöðurnar. 

Þær konur sem verða fyrir mestri kynferðislegri áreitni starfa í réttarvörslukerfinu og í  öryggisgæslu, heilbrigðisþjónustu og í ferðaþjónustu. Munur er á aldri kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og er það mest hjá yngsta aldurshópnum. Hvers vegna það er gæti mögulega verið að „á milli kynslóða hefur matið líklega breyst á því í hverju felst ofbeldi,“ segir Unnur. 

Hvers vegna kemst fólk yfir áföll og aðrir ekki?

Unnur bendir á að þó svo að margir missi heilsu eftir áföll þá eru aðrir sem gera það ekki og ná að komast yfir þennan þröskuld. „Við viljum skilja þetta nákvæmlega betur og erum í nánu samstarfi við íslenska erfðagreiningu á þessum þáttum,“ segir Unnur. 

Um 30 þúsund íslenskra kvenna hafa tekið þátt í rannsókninni og telja rannsakendur það vera þverskurðinn af íslensku samfélagi. Þess vegna gefi þessar fyrstu niðurstöður sterkar vísbendingar um framhaldið. Hún tekur þó fram að þetta er eingöngu upphafið á frekari úrvinnslu gagnanna.  

Þegar litið er til hamingju og áfalla kvenna þá mælist ekki mikill munur á milli þeirra sem höfðu orðið fyrir mörgum áföllum og þeirra sem höfðu aldrei orðið fyrir slíkum. 

Mikill áhugi hefur verið á rannsókninni og var hún meðal annars opnuð fyrir þátttakendur yfir 70 ára. 

Enn er hægt að taka þátt í rannsókninni og verður hún opin til 1. maí. 


 

mbl.is