Munu ekki sætta sig við að lifa í óvissu

Hanna Björk Þrastardóttir, móðir Jóns Þrastar Jónssonar, biðlaði til almennings …
Hanna Björk Þrastardóttir, móðir Jóns Þrastar Jónssonar, biðlaði til almennings í sjónvarpsviðtali á Írlandi í vikunni að þeir sem viti eitthvað um ferðir sonar hennar láti vita, það sé aldrei of seint. Skjáskot/Virgin Media News

Hanna Björk Þrastardóttir, móðir Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust frá Dublin á Írlandi fyrir mánuði síðan, segir síðustu fjórar vikur þær erfiðustu sem hún hefur upplifað á ævinni.

„Ég get ekki ímyndað mér neitt verra en að vita ekki hvar barnið manns er,“ segir hún í viðtali við fréttamann Virgin Media News.

Leitin að Jóni hefur verið fyrirferðarmikil í írskum fjölmiðlum og hefur RÚV eftir Michael Mulligan, yfirlögregluþjóni írsku lögreglunnar, að um 600 þúsund manns hafi fylgst með umfjöllun um leitina og í kjölfarið hafi borist fjölmargar ábendingar. Þær hafa hins vegar engu skilað nema kannski því að ekkert bendi til þess að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.

Jón Þröstur kom til Dublin til að taka þátt í pókermóti og skoða sig um í borginni á samt unnustu sinni. Hann sást síðast í grennd við hótelið sem hann og unnusta hans gistu á í Whitehall-hverf­inu,  laug­ar­dags­morg­un­inn 9. febrúar um ell­efu­leytið. Hann var án síma, veskis og vegabréfs.

Jóns Þrastar hefur verið saknað í mánuð og leit hefur …
Jóns Þrastar hefur verið saknað í mánuð og leit hefur engan árangur borið, enn sem komið er. Ljósmynd/Facebook

„Hann bara hvarf“

Í viðtali við Virgin Media News fer Hanna Björk með fréttamanni á staðinn þar sem síðast sást til Jóns Þrastar þar sem hún lýsir furðu sinni yfir hvarfi sonar síns. „Ég veit ekki hvað gerðist, hann bara hvarf.

„Þetta getur ekki verið satt, þetta er svo ólíkt honum,“ segir hún jafnframt. Aðspurð hvort hún telji að eitthvað slæmt hafi hent son hennar segir hún að fjölskyldan útiloki ekkert á þessum tímapunkti, en haldi í vonina um að finna hann og koma honum heim. „Við verðum að finna hann og tökum svo stöðuna út frá því.“

Hanna Björk biðlar til almennings að gefa sig fram ef einhver hefur svo mikið sem snefil af upplýsingum um Jón Þröst og ferðir hans. „Það er aldrei um seinan og ekki vera hrædd. Ég bið ykkur, vinsamlegast, sem móðir.“   

Hér má horfa á viðtalið við móður Jóns Þrastar í heild sinni.

Skipulögð leit ekki fyrirhuguð á næstunni

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, átti stöðufund með írsku lög­reglunni og yf­ir­manni írsku björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar, á miðvikudag. „Staðan er bara sú sama, það er enn verið að fara yfir gríðarlega mikið af ábendingum,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

Ábending sem barst eftir skipulagða leit síðustu helgi um að Jón Þröstur hefði að öllum líkindum farið í leigubíl hefur ekki fengist staðfest ennþá. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um næstu stóru skipulögðu leit, eða hvort af henni verði, á meðan frekari vísbendingar hafa ekki borist. „Við vitum einfaldlega ekki hvar við ættum að byrja eins og staðan er núna,“ segir Davíð.

„Drullu erfitt, afsakið orðbragðið“ 

Á morgun verður mánuður liðinn frá því að síðasta sást til Jóns Þrastar. „Þetta er farið að rífa svolítið í. Þetta er hið dularfyllsta mál og það er eins og að hann hafi gufað upp, það er bara þannig,“ segir Davíð. 

„Þetta er orðið alveg drullu erfitt, afsakið orðbragðið. Þetta er ótrúlega erfitt fyrir alla, en eins og ég hef alltaf sagt, við gefumst ekki upp, við höldum áfram einn dag í einu og vonandi kemur að því einn daginn að það komi ábending sem komi okkur áfram.“

Davíð segir að síðustu fjórar vikur hafi breytt lífi allrar fjölskyldunnar og það verði líklega aldrei samt á ný.

„Maður er hálf dofinn. En á meðan við vitum ekki neitt er ennþá von, það eru jafn miklar líkur á að hann sé á lífi og ekki, fyrir mér alla vega. Hann verður að koma aftur heim, ég get ekki sætt mig við að þurfa að lifa í óvissunni það sem eftir er ef þetta leysist ekki. Ég finn mig knúinn, bæði hans vegna og okkar vegna, að halda áfram og klára þetta,“ segir Davíð. 

Frá útskrift Davíðs Karls Wiium, bróður Jóns Þrastar. Með þeim …
Frá útskrift Davíðs Karls Wiium, bróður Jóns Þrastar. Með þeim á myndinni eru systur Jóns Þrastar: Þórunnog Anna og bróðir hans Daníel. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert