Ástin kviknaði á dansgólfinu

Pétur og Polina byrjuðu að dansa saman árið 2016. Þau …
Pétur og Polina byrjuðu að dansa saman árið 2016. Þau segja dansinn lífsstíl og vita ekkert skemmtilegra en að dansa. Þau æfa stíft alla daga og leggja mikið á sig til þess að ná árangri. mbl.is/Ásdís

Augu þeirra mættust á dansgólfinu eins og í rómantískri skáldsögu einn góðan veðurdag í miðri danskeppni í London árið 2016. Pétur Fannar Gunnarsson ákvað að stíga skrefið og nálgaðist Polinu Oddr frá Úkraínu og kynnti sig. Það reyndist gæfuspor því stuttu síðar voru þau orðin danspar og ekki leið á löngu þar til ástin kviknaði.

Þrjú ár í röð, 2016, 2017 og 2018 urðu þau heimsmeistarar í latíndönsum undir 21 árs en eru nú farin að keppa í flokki fullorðinna. Óhætt er að segja að þau hafi smollið saman en þrotlaus vinna skilaði þeim á verðlaunapallinn í þrígang. 

Hið fullkomna par

„Við unnum þarna þrjú ár í röð en þarna keppa yfir 200 pör hvaðanæva úr heiminum. Þetta hafa verið erfiðar keppnir. Á fyrsta árinu vorum við mjög ung og vorum þá að keppa við eldri keppendur en hvert ár var ný áskorun og nýir keppendur. Það var mikill heiður fyrir okkur að vinna en árið 2018 náðum við yfirburðasigri; 55 atkvæði í fyrsta sæti af 60 mögulegum,“ segir hann.

Pétur og Polina eru þrefaldir heimsmeistarar í latíndönsum undir 21 …
Pétur og Polina eru þrefaldir heimsmeistarar í latíndönsum undir 21 árs.

„Samvinna okkar á dansgólfinu skilar sér og við erum hið fullkomna par. Það er gott samræmi á milli okkar sem er okkar helsti styrkur. Svo er mjög góð tenging á milli okkar á dansgólfinu,“ segir hann og útskýrir að keppt sé í fimm dönsum.

„Þetta er eins og spretthlaup og maður gefur allt í þetta. Þegar maður er búinn að dansa svífur maður út af dansgólfinu í leiðslu. Maður leggur allt í sölurnar eftir allar æfingarnar alla ævina og hugsar svo: tekst það eða tekst það ekki?“

Mamma grét úti í sal

Þau segja bæði tilfinninguna að vinna heimsmeistaratitla engri lík.

„Ef ég tala beint frá hjartanu þá er maður búinn að vera alla ævi að vinna að þessu og manni finnst á því augnabliki þegar maður dansar að það sé alltaf eitthvað sem maður gæti gert betur. En stundin þegar maður stendur á verðlaunapallinum og það er verið að spila íslenska þjóðsönginn er einstök og tárin spretta fram. Við sungum bæði hástöfum íslenska þjóðsönginn, en við dönsum fyrir Ísland. Polina er búin að læra svona hálfan þjóðsönginn,“ segir Pétur.

„Það er ekki hægt að útskýra allar þær tilfinningar sem kvikna. Foreldrar mínir voru í salnum og ég horfði í augun á mömmu sem hágrét. Mitt mottó hefur alltaf verið: maður uppsker eins og maður sáir.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »