Hreyfing á málum en viðkvæm staða

Frá fundi viðsemjenda í Karphúsinu.
Frá fundi viðsemjenda í Karphúsinu. mbl.is/Eggert

Gangur er í viðræðum og hreyfing á málum á sáttafundum samflots iðnaðarmanna, Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Landssambands íslenskra verslunarmanna (LÍV) með Samtökum atvinnulífsins (SA) undir stjórn Ríkissáttasemjara. Gengið er út frá að fundahöld verði hjá sáttasemjara yfir alla helgina, bæði á laugardag og sunnudag frá kl. 9 til 17.30.

Viðsemjendur í Karphúsinu eru bundnir trúnaði um það sem þar fer fram á sáttafundum og mega ekki greina frá stöðu einstakra mála við fjölmiðla. Í pistli á heimasíðu Samiðnar í gær segir að þó að ekki sé hægt að segja að mönnum hafi skilað mikið áfram í samningamálum í vikunni hafi samt verið hreyfing á málum. „Törnin hefst kl. 11.30 í dag og verður alla helgina. Vonir standa til að okkur takist að ljúka umræðunni um vinnutímastyttinguna um helgina. Takist að ljúka þeirri umræðu gætu önnur atriði farið að rúlla áfram,“ segir í pistlinum.

Næsta vika talin geta ráðið úrslitum um framhaldið

Samninganefnd SGS samþykkti í gær að halda viðræðum áfram við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning og verður viðræðum haldið áfram eftir helgi.

„Aðilar hafa fundað nánast daglega undanfarnar vikur, auk þess sem vinna starfshópa um einstök málefni hefur verið í fullum gangi. Viðræðurnar hafa gengið þokkalega en staðan er viðkvæm og margt er enn óleyst,“ segir í tilkynningu sem send var út eftir hádegi í gær eftir fundahöld fulltrúa þeirra 16 aðildarfélaga sem SGS hefur samningsumboð fyrir.

„Þolinmæði Starfsgreinasambandsins í þessum kjaraviðræðum er ekki endalaus og það er ljóst að næsta vika getur ráðið úrslitum upp á framhaldið,“ segir þar ennfremur.

Um fimm mánuðir eru nú liðnir frá því að stærstu verkalýðsfélögin lögðu sínar kröfugerðir fyrir samninganefnd atvinnurekenda og viðræður fóru í gang.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert