Kallað eftir skýrari stefnu um vindorku

Vindmillurnar sem Landsvirkjun reisti í tilraunaskyni við Búrfell hafa sannað …
Vindmillurnar sem Landsvirkjun reisti í tilraunaskyni við Búrfell hafa sannað að mikil tækifæri liggja í beislun vindorkunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þótt unnið sé að einstaka verkefnum við beislun vindorku á Íslandi vantar mikið upp á að skipulag stjórnkerfisins virki. Skýra opinbera stefnu vantar til að grundvalla skipulagsákvarðanir á og sveitarfélögin eru rög við að taka ákvarðanir sem ekki verða svo glatt afturkallaðar. Stærri vindorkuver eiga að fara í rammaáætlun þar sem allt er fast þar sem tillögur verkefnisstjórnar 3. áætlunar hafa ekki verið afgreiddar á Alþingi.

Fjögur vindorkuver hafa hafið umhverfismatsferli. Landsvirkjun hefur undirbúið stórt vindorkuver við Búrfellsvirkjun, Búrfellslund, og fór með hana í gegnum umhverfismat. Grundvölluðust áformin af árangri tveggja vindrafstöðva sem settar voru upp og hafa verið reknar þar í tilraunaskyni. Vakti framkvæmdin ekki hrifningu Skipulagsstofnunar sem lagði til að áformin yrðu endurskoðuð.

Verkefnisstjórn 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar setti Búrfellslund í biðflokk rammaáætlunar. Hins vegar setti verkefnisstjórn annað verkefni Landsvirkjunar, Blöndulund, í orkunýtingarflokk þótt ekki sé hægt að ráðast í þá framkvæmd vegna ófullnægjandi flutningsgetu raforku frá svæðinu.

Fyrirtækið Biokroft ehf. reisti tvær vindmyllur í Þykkvabæ og hefur verið með vindorkugarð í nágrenninu í umhverfismatsferli. Þess er krafist að fyrirtækið ráðist í kostnaðarsamar rannsóknir á farleiðum fugla. Önnur vindmyllan eyðilagðist og vildi Biokraft endurnýja báðar með öflugri búnaði en sveitarfélagið hafnaði því.

Tvö verkefni í mat

Tvö fyrirtæki eru að hefja umhverfismat fyrir vindorkuver í Reykhólasveit og Dalabyggð en bæði eru að taka fyrstu skrefin. Annars vegar er það EM Orka sem áformar vindorkuver á Garpsdalsfjalli við Gilsfjörð og hins vegar Storm orka sem hyggst reisa vindorkuver á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð.

Víða um land er verið að huga að þessum málum, meðal annars með mælingum á vindi.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir að skipulags- og leyfisveitingaferlið sé ekki skilvirkt. Sveitarfélögin séu hrædd við þetta nýja áreiti og eigi erfitt með að taka ákvarðanir um framkvæmdir sem ekki verði aftur snúið með. Hann kallar eftir skýrari leiðbeiningum til sveitarfélaganna og að skerpa einnig lagarammann fyrir stærri vindorkuverin.

Fréttin í heild birtist í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert