Láta reyna á lögmæti aðgerðanna

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir það vonbrigði að verkföll hópbifreiðastjóra Eflingar hafi verið samþykkt en komi honum þó ekki á óvart.

„Við erum að skoða með Samtökum atvinnulífsins lögmæti tillaganna og verkfallsboðana,“ segir Björn og nefnir t.d. í því samhengi að aðgerðir Eflingar gangi m.a. út á að bílstjórar rukki ekki inn í rúturnar, s.s. flugrútuna.

„Starfsmaðurinn ætlast til þess að fá fullar launagreiðslur þó að hann sé ekki að sinna starfinu sínu að fullu. Það er verið að skoða þetta með lögmönnum Samtaka atvinnulífsins og ég geri ráð fyrir að SA muni vísa einhverjum þessara verkfallsboðana til félagsdóms,“ segir Björn. „Ef það ber þannig undir að bílstjórar geti ekki sinnt hluta af starfi sínu þá þurfum við að meta hvernig brugðist verði við því. Við ætlumst til þess að starfsfólk sinni starfi sínu þegar það er í vinnu.“

Bílstjórar hjá Eflingu hætta að aka Strætó á álagstímum frá 1. apríl

Meðal þeirra aðgerða sem samþykktar voru í verkfallsboðun Eflingar er vinnustöðvun strætóbílstjóra á vegum Kynnisferða á milli klukkan 7 og 9 á morgnana og 16 og 18 síðdegis alla virka daga frá og með 1. apríl. Kynnisferðir reka um 50 strætisvagna og þjónusta tíu leiðir Strætó.

„Við eigum eftir að fara yfir þetta með Strætó hvernig við bregðumst við þessu,“ segir Björn en bendir á að fyrstu aðgerðirnar sem snúa að Strætó séu fyrirhugaðar frá og með 18. mars en þá munu strætóbílstjórar ekki fylgjast með því hvort fólk greiði fargjaldið eða ekki.

„Ég trúi því að fólk greiði í vagnana og við höldum áfram að keyra þó að verkfallið verði dæmt löglegt. En þetta verður erfiðara þegar við eigum að hætta akstri á háannatíma þegar mesta álagið er á Strætó,“ segir Björn. „Við skoðum með Samtökum atvinnulífsins lögmæti aðgerðanna og hvernig við getum brugðist við til að lágmarka okkar skaða. Það veldur gríðarlegu tjóni að leggja niður vinnu á álagstímum.“

Spurður um áhrif á ferðaþjónustuhlutann segir Björn það ráðast af því hvernig atkvæðagreiðslan fari hjá VR. „Ef VR fer líka í verkfall höfum við mjög fáa bílstjóra til að vinna störfin og við eigum eftir að þurfa að fella niður langflestar ferðirnar okkar,“ segir Björn en bætir við að reynt verði að sinna sem mestri þjónustu á þeim fáu bílstjórum fyrirtækisins sem eru utan Eflingar eða VR. „Við reynum að halda opinni línu milli Reykjavíkur og Keflavíkur,“ segir hann.

Björn bindur vonir til þess að aðilar nái saman við samningaborðið áður en í harðbakkann slær. „Ég vona að við náum að semja til að lágmarka skaðann. Þetta er þegar byrjað að skaða ferðaþjónustuna og það er byrjað að fréttast af þessum aðgerðum utan Íslands. Við leggjum allt kapp á að SA vinni að því að ná samningum sem allra fyrst. Verkfallsaðgerðir skaða alla, þær fela í sér launaskerðingu fyrir starfsfólkið og tap fyrir okkur,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert