„Seðlabankinn með allt niðrum sig“

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir aðgerðir Seðlabanka Íslands gegn Samherja grafalvarlegar og að málið verði skoðað áfram hjá nefndinni. Hún segir að framhaldið skýrist betur eftir fund nefndarinnar með fulltrúum Seðlabankans á fimmtudag.

Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi aðför Seðlabankans gegn Samherja á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á miðvikudag. SÍ beitti Samherja stjórnvaldssektum árið 2016 þrátt fyrir að ríkissaksóknari hefði áður komið þeirri afstöðu á framfæri við Seðlabankann að ekki væru lagaheimildir til staðar fyrir aðgerðunum.

Helga Vala og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, voru gestir Bjartar Ólafsdóttur í þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í morgun.

„Mér sýnist í einföldu máli, Seðlabankinn er með allt niðrum sig í þessu máli,“ hafði Þorsteinn um málið að segja. Hann segir að ítrekað hafi verið bent á að ekki væri lagastoð fyrir aðgerðum Seðlabankans en bankinn léti ekki segjast. Þetta sé sérkennilegt og mikill áfellisdómur fyrir bankann.

Þá benti hann á að það geti skaðað fyrirtæki mjög að sitja undir ásökunum af þeim toga sem Samherji sat undir af hálfu Seðlabankans og það sé alvarlegt í því ljósi að SÍ hefði haldið áfram á þeirri vegferð þvert á alla ráðgjöf um annað. Sagði hann mikilvægt að stjórnvöld vandi til verka, og þarna hafi augljóslega ekki verið vandað til verka.

Hlusta má á umræðurnar í spilaranum hér að ofan.

Þorsteinn Víglundsson og Helga Vala Helgadóttir.
Þorsteinn Víglundsson og Helga Vala Helgadóttir. Skjáskot/K100
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert