Tækifæri sem læknar hafa ekki

Baldur Snær Sigurðsson og Rósa María Hjörvar starfa hjá Blindrafélaginu.
Baldur Snær Sigurðsson og Rósa María Hjörvar starfa hjá Blindrafélaginu. mbl.is/Árni Sæberg

„Google er þekktasti blindi einstaklingurinn í heiminum og hún lendir í sömu vandræðum og við hin sem erum blind eða sjónskert. Ef stafrænt aðgengi er í lagi þá þarf enginn að vera blindur eða sjónskertur. Hér er tækifæri sem læknar hafa ekki,“ segir Rósa María Hjörvar, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins.

Hún og Baldur Snær Sigurðsson, tækniráðgjafi hjá Blindrafélaginu, segja þetta snúast um að fólk eigi jafnan rétt að upplýsingum. Ef það er skiptir sjónskerðing minna máli. Meðal annars á vinnumarkaði. 

Allir eiga sama rétt á upplýsingum en fólk hefur mismunandi forsendur til að meðtaka þær. Margir búa við einhvers konar skerðingu sem felur í sér að laga þarf upplýsingar og samskiptamáta að þeirra þörfum. Stjórnvöldum ber að tryggja það að fólk fái viðeigandi aðstoð og þjónustu sem gerir því kleift að taka til sín og meðtaka upplýsingar. En hver er staðan?

Í dag býður atvinnulífið einfaldlega ekki upp á að fólk geti verið á vinnumarkaði án þess að geta sótt sér rafrænar upplýsingar og tekið þátt í stafrænum samskiptum. Þetta sé líka spurning um sjálfstætt líf fólks, svo sem að geta átt í bankaviðskiptum án afskipta annarra, segja Rósa og Baldur.

Eðlilegur hluti af því að eldast er að sjónin fer …
Eðlilegur hluti af því að eldast er að sjónin fer að daprast. AFP

Á sama tíma og öldruðum fjölgar er þetta einnig ákveðið velferðarmál. „Við hjá Blindrafélaginu sjáum að það eru um 70% félagsmanna komnir yfir sjötugt. Blinda og sjónskerðing er eðlilegur líffræðilegur hluti af því að eldast. Eftir 85 ára aldur eru fleiri en færri blindir eða sjónskertir. Á sama tíma og samfélagið leitar sífellt fleiri leiða til þess að tryggja að fólk geti búið lengur heima hjá sér verðum við að auka aðgengi blindra og sjónskertra. Þú verður að geta pantað lyf á netinu, sinnt bankaviðskiptum og svo mætti lengi telja,“ segir Rósa.

Að ýmsu er að huga og eitt af verkefnum Rósu og Baldurs hjá Blindrafélaginu er að vinna með fyrirtækjum og vefhönnuðum við að bæta aðgengi fyrir blinda og sjónskerta.

Að sögn Baldurs kemur Blindrafélagið gjarnan inn með athugasemdir sem byggja á WCAG-staðlinum, sem er alþjóðlegur, en gátlisti sem honum fylgir endurspeglar mismunandi fatlanir. Leitast er við að hann taki á þeim atriðum sem mestu máli skipta varðandi skert aðgengi, s.s. blindu, sjónskerðingu, hreyfihömlun, heyrnarleysi o.fl.

„Við gerum til að mynda athugasemdir um litasamsetningu, slæmar merkingar, lélegt sjónrænt flæði og fleira af þessum toga,“ segir Baldur. Þegar hann er spurður út í viðbrögð fyrirtækja og stofnana við slíkum athugasemdum segir hann þau mismunandi. „Sumir taka mjög vel í þessar athugasemdir en aðrir hafa ekki einu sinni fyrir því að svara okkur,“ segir hann.

Rósa nefnir gott samstarf við Tryggingastofnun og Arion banka á meðan RÚV hafi ekki einu sinni svarað athugasemdum Blindrafélagsins. Á sama tíma aukast kröfur löggjafans um að jafnrétti ríki á þessu sviði og er unnið að breytingum á Evrópulöggjöfinni á þessum vettvangi. Þegar hefur tekið gildi tilskipun Evrópusambandsins um rafrænt aðgengi á opinberum vefjum og styttist í að svipaðar reglur taki gildi varðandi einkageirann. 

Ekki verið að flækja hlutina í Bandaríkjunum

Baldur og Rósa segja löggjöfina í Bandaríkjunum einfalda og ekkert verið að flækja hlutina. Sama þjónusta á að gilda fyrir alla. Þetta þurfa íslensk fyrirtæki að hafa í huga þegar þau fara á Bandaríkjamarkað og nú í framtíðinni á Evrópumarkað.

„Þetta snertir ferðaþjónustuna, iðnfyrirtæki og í raun alla sem eiga í alþjóðlegum samskiptum. Í Bandaríkjunum voru lög sem banna mismunun á grundvelli fötlunar sett árið 1990 og gilda þau um alla. Til að mynda tapaði Kardashian-fjölskyldan máli þar sem sjónskert kona gerði kröfu um jafnt aðgengi að kaupum á snyrtivörum tengdum fyrirtæki fjölskyldunnar. Nú er sambærilegt mál í gangi gegn söngkonunni Beyoncé en vefur hennar er ekki hannaður með þarfir blindra og sjónskertra í huga. Væntanlega mun söngkonan tapa málinu,“ segja þau.

Æ, þið eruð svo fá... 

Mjög skortir á þekkingu fólks á málefnum sem snerta blinda og sjónskerta á sama tíma og þessi hópur stækkar hratt. Rósa og Baldur segja blinda og sjónskerta vana fordómum enda hafi þeir alltaf mætt þeim. Spurð út í þetta eru dæmin mýmörg; svo sem „æ, þið eruð svo fá, af hverju eigum við að taka tillit til ykkar við hönnun á smáforriti? Eins virðist margir telja að við getum ekki gert neitt hjálparlaust. Það er bara ekki þannig segja Rósa og Baldur. 

Nokkur fyrirtæki og stofnanir eru farin að nýta sér þjónustu fyrirtækja eins og Siteimprove og Sjá við að gera úttekt á vefjum sínum. Þá er farið yfir allt á milli himins og jarðar á viðkomandi vefsvæðum. Svo sem litanotkun, uppsetningu og fleira. Nýlega fékk Isavia  viðurkenningu Blindrafélagsins og Siteimprove fyrir góða frammistöðu í rafrænu aðgengi á Vefverðlaunahátíðinni.

Rósa segir að með samstarfinu með Siteimprove sé tryggt að það er ekki persónulegt mat eða eitthvað annað sem ræður því hvort vefir standast úttektir eður ei. Þar fá fyrirtækin og stofnanir einfaldlega gátlista í hendur þar sem gerðar eru ákveðnar kröfur til þeirra. Mikilvægt sé fyrir þá sem eru að vinna í þessu umhverfi að fá lista yfir það sem þarf að vera í lagi en ekki sé byggt á einhverju sem er bundið við einstaka notendur og þeirra smekk.

Google er í svipuðum sporum og blindir og sjónskertir.
Google er í svipuðum sporum og blindir og sjónskertir. AFP

Verkefnin eru fjölbreytt og fjölgar stöðugt á starfræna sviðinu, segir Rósa, og um leið möguleikunum með auknu rafrænu aðgengi.

„Okkur þykir eðlilega neikvætt að ákveðin þjónusta er að hverfa í nærumhverfinu þar sem hún verður rafræn en um leið er þetta gott fyrir þá yngri. Stór hluti félagsmanna Blindrafélagsins er fólk sem rétt missti af tölvuvæðingunni eða vann aðeins síðustu ár starfsævinnar við tölvu. Nú er aftur á móti að vaxa úr grasi kynslóð sem er vön því að geta gert allt stafrænt og við vitum að þegar þessi hópur kemur inn í Blindrafélagið mun hann ekki sætta sig við að njóta ekki jafnræðis. Rafrænt aðgengi er lífsnauðsyn í dag,“ segir hún.

Baldur segir að ekki megi gleyma þeirri staðreynd að fatlaðir búa við meiri hættu á misnotkun og fjárhagslegum ógnunum en ófatlaðir. Allt frá því að kjósa inni í kjörklefa í að eiga bankaviðskipti á netinu. „Evrópsku lögin um rafrænt aðgengi eru nú í skoðun hjá utanríkismálanefnd og hafa verið lengi,“ segir hann, en seinni áfangi þeirra var tekinn fyrir á Evrópuþinginu nýverið.

Blindum og sjónskertum stendur til boða ýmiss stoðbúnaður. Þeir eiga rétt á endurgjaldslausri úthlutun á talgervilsröddum – Karli eða Dóru – en sú þjónusta nýtist öllum þeim sem geta ekki lesið með hefðbundnum hætti. Karl og Dóru er aðeins hægt að nota í Android-símum og spjaldtölvum eða tölvum með Windows-stýrikerfi. Ekki hugbúnaði frá Apple, svo sem iPhone, iPad eða Machintosh-tölvum.

Rósa segist nota Dóru sem lesi fyrir hana efnið á netinu og eitt af því sem WCAG-staðallinn er notaður við er að tryggja að það séu réttar skipanir á bak við hvern hnapp þannig að blindir, sjónskertir og lesblindir fái réttar upplýsingar.

„Okkur þykir óneitanlega skondið þegar viðkvæðið er: En þið eruð svo fá. Þetta er ekki rétt þar sem einn af hverjum fimm glímir við einhvers konar röskun sem krefst þess að viðkomandi þurfi á aukinni þjónustu að halda. Svo sem vegna lesblindu, litblindu o.fl.

Google er sá blindi einstaklingur sem setur mestan þrýsting á að þessir hlutir séu í lagi. Google er að læra að sjá og er alltaf að verða betri en í grunninn er Google blind.

Algrím Google er textalestur og tenging á milli texta. Google er í raun bókasafnskerfi sem var fundið upp af háskólastúdentum sem vildu raða upp greinum. Það gerir það að verkum að því betra sem aðgengið er því ofar raðast textinn á Google. Þetta hefur hjálpað okkur verulega því þegar hún lendir í vanda þá er hlutunum kippt í lag,“ segir Rósa.

Þau benda á að margt fólk sem ekki flokkast sem fatlað er samt að upplifa alls konar aðstæður í nútímanum þar sem aðgengi skiptir verulegu máli. Þeir sem glíma við lestrarörðugleika eru stór hópur sem nýtur góðs af bættri stafrænu aðgengi.

„Við erum að tala um svo margt og svo marga sem myndu njóta góðs af bættu aðgengi blindra og sjónskertra. Til að mynda akstursleiðbeiningar sem eru lesnar fyrir þig á meðan þú horfir á veginn, ekki skjáinn. Hljóðbækur njóta sífellt meiri vinsælda og það er gott að geta raddstýrt símanum þegar þú ert upptekinn við eitthvað,“ segir Rósa.

Íslensku talgervilsraddirnar heita Karl og Dóra.
Íslensku talgervilsraddirnar heita Karl og Dóra. mbl.is/Árni Sæberg

En þetta leiðir okkur að stóra vandamálinu, það er íslenskunni og smæð málsvæðisins segja þau Baldur og Rósa. Eins og áður sagði er ekki hægt að nota íslensku talgervlana á tæki frá Apple. Ástæðan er sú að Apple fékk að koma inn á íslenskan markað, svo sem inn í skólana, á ensku. Sum sveitarfélög hafa valið Apple sem sinn grunnhugbúnað sem þýðir að börn og sjónskert börn eru útilokuð í þeim sveitarfélögum. 

„Þau koma að lokuðum dyrum og þetta er stórt skref aftur á bak. Ekki það að Apple sé ekki aðgengilegt umhverfi fyrir blinda og sjónskerta, langt því frá, en þarna er það hversu lítið málsvæði íslenskan er því miður sem veldur því að íslenskir blindir og sjónskertir geta ekki notað Apple,“ segir Rósa.

Að sögn Baldurs eru snjallhátalarar, sem eru komnir á mörg heimili, afar þægileg lausn fyrir blinda og sjónskerta.

Apple er með aðgengilegt umhverfi fyrir blinda og sjónskerta en …
Apple er með aðgengilegt umhverfi fyrir blinda og sjónskerta en því miður ekki fyrir íslenska notendur. AFP

Bresk rannsókn hefur leitt í ljós að um 42% barna á aldrinum 9-16 ára nota snjalltæki sem skilja raddskipanir. Algengast er að börnin biðji snjallþjóna eins og Siri eða Alexu um aðstoð við heimanámið og eitt af hverjum sjö notar tæknina til að fletta upp staðreyndum eða biðja um skilgreiningu orða og samheiti. Yngri börnum virðist tamara en þeim sem eldri eru að tala við snjalltækin á heimilinu og nýta sér aðstoð þeirra við dagleg störf. 

Snjallhátalarar eru komnir á mörg íslensk heimili og notkunarmöguleikarnir nánast óendanlegir. Þú getur kveikt ljósin, sett kaffivélina af stað og stýrt þvottavélinni.

„Þú getur rétt ímyndað þér hversu þægilegt þetta getur verið fyrir blinda og sjónskerta því takkarnir á tækjum í dag eru mjög erfiðir fyrir okkur. Að geta sagt við þvottavélina; 60 gráður og engin þeytivinda er algjör bylting fyrir okkur,“ segir Rósa og bætir við að því miður séu forritin á erlendum tungumálum sem veldur því að smám saman eru blindir og sjónskertir sviptir sínu eigin tungumáli – íslenskunni.

Tæknin hefur tækifæri sem læknar hafa ekki til þess að …
Tæknin hefur tækifæri sem læknar hafa ekki til þess að bæta stöðu blindra og sjónskertra. Að jafna aðgengi í samfélaginu. AFP

„Þarna vantar okkur að Google og Apple komi á móts við okkur. Að þessir snjallhátalarar séu með íslensku sem valmöguleika. Sjónvarpstækninni fleygir fram og margir þeirra sem eru sjónskertir eiga orðið erfitt með að kveikja á sjónvarpinu því þú þarft að nota sjónina við að velja á skjánum og engin raddstýring á íslensku í boði,“ segir Rósa.

Sjálfseignarstofnunin Almannarómur hefur gert samning við stjórnvöld um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar til ársins 2022. Markmið máltækniáætlunarinnar er að tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og tungumálinu verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar. 

Meðal verkefna sem ráðist verður í er að kynna möguleika máltækni fyrir fyrirtækjum og stofnunum og koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni.

Eiríkur Rögnvaldsson.
Eiríkur Rögnvaldsson. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Eiga Eiríki Rögnvaldssyni mikið að þakka

Markmið máltækniáætlunarinnar er m.a. að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir. Blindrafélagið er einn af stofnaðilum Almannaróms sem voru stofnuð 5. júní 2014.

Baldur og Rósa segjast binda miklar vonir við þetta verkefni en Blindrafélagið gaf gagnagrunn sinn, þar sem safnað hefur verið saman framburðar- og beygingarreglum o.fl., inn í verkefnið í þeirri von að stóru fyrirtækin láti íslenskuna fylgja með í stafrænum heimi. „Við eigum Eiríki Rögnvaldssyni mikið að þakka. Bæði við gerð gagnagrunns en ekki síst fyrir hans framlag við að minna stjórnmálamenn á mikilvægi íslenskrar tungu,“ segir Rósa. 

Í gegnum vefvarpið geta blindir og sjónskertir hlustað á rauntímalestur …
Í gegnum vefvarpið geta blindir og sjónskertir hlustað á rauntímalestur á sjónvarpsefni. mbl.is/Árni Sæberg

Eitt af þeim stoðtækjum sem blindir og sjónskertir hafa aðgang að í gegnum Blindrafélagið er vefvarp Blindrafélagsins en það er tæki sem býður upp á að hlusta á rauntímalestur sjónvarpstexta hjá RÚV og fylgjast með erlendu efni í sjónvarpinu. Eins er hægt að hlusta á lestur Morgunblaðsins og annarra fjölmiðla í gegnum tækið, að sögn Baldurs. 

Tækið er mikið töfratæki og er því hvíslað að blaðakonu að það hafi jafnvel bjargað hjónabandi enda mikill léttir að þurfa ekki að lesa upp textann fyrir þá sem eiga erfitt með að lesa textann á sama tíma og horft er á sjónvarpið. Að geta notið þess að fylgjast með saman er eitt af því sem flestum þykir sjálfsagt mál en var það ekki fyrir þá sem eru blindir eða sjónskertir. 

mbl.is