Textun nýtist tugþúsundum

Hjörtur Heiðar Jónsson, formaður Heyrnarhjálpar.
Hjörtur Heiðar Jónsson, formaður Heyrnarhjálpar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Textun innlends efnis heyrir nánast til undantekninga í íslensku sjónvarpi þrátt fyrir að hún myndi nýtast tugþúsundum landsmanna. Hjörtur Heiðar Jónsson, formaður Heyrnarhjálpar, segir að það sé ótrúlega oft sem fatlaðir gangi á vegg þegar kemur að hlutum sem væri sáraeinfalt að laga.

Hjörtur Heiðar kom inn í starf foreldrafélags heyrnardaufra rétt fyrir aldamótin í tengslum við dætur sínar sem báðar eru daufblindar. Dæturnar, Áslaug Ýr og Snædís Rán, eru með arf­geng­an tauga­hrörn­un­ar­sjúk­dóm sem veldur sjón­missi, heyrn­ar­missi og hreyfi­höml­un.

Á þeim tíma var sáralítið íslenskt efni textað í sjónvarpi. Aðeins á 888 en bara erlent efni. „Þannig er það enn í dag að heyrnarlausir hafa ekki aðgang að íslensku efni nema að litlu leyti. Alveg fram á síðustu ár hafa heyrnarlausir því verið vel að sér í amerískum bíómyndum og enskum þáttum en ekkert vitað um íslenskar bíómyndir og þætti,“ segir Hjörtur Heiðar. 

Því miður er staðan eiginlega verst þegar kemur að barnaefni en samt mest aðkallandi þar segir Hjörtur. „Hér áður var barnaefni yfirleitt textað þar sem það var á erlendum tungumálum en nú er það nánast allt talsett og ekki textað. Heyrnarskertir krakkar sem eiga erfitt með að fylgjast með talmáli missa því af barnaefninu.“

Hjörtur segir að RÚV standi sig best af sjónvarpsstöðvunum en samt vanti töluvert upp á. Ítrekað hefur verið reynt að koma í gegn frumvarpi til laga um textun og var það síðast lagt fram af Svandísi Svavarsdóttur, núverandi heilbrigðisráðherra, árið 2017.

Aðrar innlendar sjónvarpsstöðvar texta eingöngu erlent efni. Rök þeirra við kröfum um textun eru að það sé of íþyngjandi vegna kostnaðar. Það hefur þó ekki hamlað þeim að texta erlent efni.

RÚV er sú sjónvarpsstöð sem stendur sig best þegar kemur …
RÚV er sú sjónvarpsstöð sem stendur sig best þegar kemur að textun á innlendu efni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er dýrara að texta innlent efni?

Fjölmiðlaveitur nýta sér að ákvæði um textun innlends efnis eru mun vægari en um textun erlends efnis í lögum um fjölmiðla. Samkvæmt 29. grein laganna er þeim skylt að texta allt erlent efni í því skyni að efla íslenska tungu, en innlent efni sem fellur undir 30. greinina skuli texta eftir því sem kostur er. Það þýðir í raun að fjölmiðlaveitum er veitt umboð til að mismuna fólki um aðgengi að innlendu efni. Í samanburði má benda á að sjónvarpsstöðvar á hinum Norðurlöndunum texta allt innlent efni, segir á vef Heyrnarhjálpar.

Textun sjónvarpsefnis nýtist öllum sem eru heyrnarskertir og er sameiginlegt baráttumál Félags heyrnarlausra, Heyrnarhjálpar og Foreldra og styrktarfélags heyrnardaufra barna auk Félags eldri borgara.

Heyrnarskerðing er eðlilegur þáttur öldrunar og sá hópur talar ekki táknmál, segir Hjörtur. Fyrir utan að textun gagnast líka útlendingum og jafnvel lesblindum, það er að hlusta og sjá á sama tíma. „Fyrir utan sem maður þekkir það sjálfur hvað það getur verið gott að lesa textann þegar allt er á fullu í kringum mann. Flestir foreldrar kannast væntanlega við það,“ segir Hjörtur og brosir.

Mjög var kvartað undan hljóðinu í fyrsta þættinum af Ófærð II og áttu mjög margir í erfiðleikum með að skilja hvað fór persónunum á milli. Hjörtur segir að RÚV hafi brugðist þar mjög vel við og textun innlendra þátta sé nýjung sem vonandi sé komin til að vera. Alveg fram á síðustu ár hafi áramótaskaupið og nýársávarp forseta Íslands verið um það bil eina innlenda textaða efnið í sjónvarpi fyrir utan ef tekin voru viðtöl við heyrnarskerta. 

Ólafur Darri Ólafsson leikur eitt aðalhlutverkið í Ófærð. Áhorfendur áttu …
Ólafur Darri Ólafsson leikur eitt aðalhlutverkið í Ófærð. Áhorfendur áttu oft erfitt með að greina hvað hann og aðrir sögðu í fyrsta þættinum. mbl.is/Ásdís

Heyrnarlausum hefur fækkað á undanförnum árum einkum vegna mikilla framfara í gerð heyrnartækja, svo sem með kuðungsígræðslum.

Kuðungsígræðslutæki (CI) er hjálpartæki sem gefur alvarlega heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki möguleika á að heyra hljóð. Tækið framkallar hljóðáhrif með því að örva heyrnartaugina með rafmagni. Kuðungsígræðslutækið er samsett úr innri hluta, sem er græddur í eyrað með aðgerð, og ytri búnaði, sem borinn er aftan við eyrað. Hlutinn sem græddur er í eyrað er samsettur úr viðtæki og rafskauti með mörgum rásum, en ytri hlutinn úr hljóðnema, sendi og talgervli sem er stilltur fyrir hvern og einn notanda. Talgervillinn er annaðhvort vasatæki eða staðsettur bak við eyrað, svipað og hefðbundin heyrnartæki.

Afleiðingar fötlunar eru félagsleg einangrun

Á sama tíma fjölgar í hópi heyrnarskertra því þrátt fyrir að þú fáir heyrnartæki ertu ekki fullheyrandi. Um 200 börn og unglingar þurfa heyrnartæki á Íslandi og allt að 15% þjóðarinnar er heyrnarskert að einhverju leyti. Af þeim er aðeins hluti sem hefur farið í heyrnarmælingu og er að nota heyrnartæki á réttan hátt, en það á ekki síst við um elsta fólkið sem oft á erfitt með að ráða við lítil og fíngerð heyrnartæki.

„Heyrnarleysi er falið vandamál og þegar fólk fer að missa heyrn gerir það yfirleitt allt til þess að fela það. Það þykist heyra, tekur ekki þátt í umræðum og heldur sig til hlés.

Það sem heyrnar- og sjónskerðing eiga sameiginlegt er að afleiðingar af fötluninni eru að miklu leyti félagslegar. Þess vegna viljum við hjá Heyrnarhjálp líta á heyrnarskerðingu sem félagslega fötlun og þegar samfélagið kemur ekki á móts við einstaklingana þá gerir það fötlunina miklu verri,“ segir Hjörtur. 

Heyrnarskertir bíða oft límdir við brottfararhliðið nánast frá því þeir …
Heyrnarskertir bíða oft límdir við brottfararhliðið nánast frá því þeir koma inn í flugstöðina af ótta við að missa af fluginu. mbl.is/Eggert

Hann segir þetta oft vera lítil atriði sem við sem heyrum gerum okkur ekki grein fyrir. Til að mynda þjónusta á flugvöllum þegar fólk er kallað upp ef það er orðið of seint um borð í flugvélina. Ef þetta væri líka birt á skjám myndi það hjálpa mikið og þýða að heyrnarskertir þurfa ekki að bíða límdir við brottfararhliðið nánast frá því þeir koma inn í flugstöðina af ótta við að missa af fluginu. Svo margt sem er svo einfalt að laga en því miður hefur reynst erfitt að fá úr því bætt, segir hann.

Hjörtur nefnir tónmöskva en það er búnaður til að auka aðgengi heyrnarskertra að töluðu máli. Tæknin er fólgin í snúru, sem lögð er í hring og myndar rafsegulsvið. Þessi tækni gerir notendum heyrnartækja, sem hafa sérstaka móttakara fyrir tónmöskvasendingar (T-spólu), kleift að heyra betur það sem sent er í gegnum tónmöskvann. Því það getur reynst þrautin þyngri fyrir heyrnarskerta að sækja sér þjónustu ef þeir heyra ekki í viðmælendum sem eru kannski á bak við glervegg þannig að erfitt er að greina hvað þeir eru að segja.

Áhyggjur af stöðu barna

„Við höfum haft töluverðar áhyggjur stöðu heyrnarskertra barna og að þau fái aðstoð og þjálfun frá fyrstu mánuðum. Margir halda að heyrn sé vélræn virkni í líkamanum en svo er ekki. Heyrnin er að miklum hluta heilastarfsemi. Ef þú þjálfar ekki talgreininguna allt frá unga aldri getur það verið of seint ef viðkomandi fer til dæmis í kuðungsígræðslu á unglingsárum. 

Í skólakerfinu vantar töluvert upp á þjónustu við heyrnarskertra og í raun lendir það á skólanum og um leið foreldrum að berjast fyrir því að fá nauðsynlegan búnað í skólann ef heyrnarskert barn er innritað í skólann. Ef foreldrarnir eru ekki sterkir er mikil hætta á að barnið verði af þeirri þjónustu sem það á og þarf að fá í skólakerfinu,“ segir Hjörtur.

Hann segir að margt sé hægt að gera til að bæta stöðu heyrnarskertra barna í skólakerfinu. Hægt sé að bæta hljóðvist, setja upp hátalarakerfi og staðsetja nemandann rétt í stofunni. Eins eru til flóknari lausnir eins og T-spólur eða FM-búnaður.

„Tæknin að þróast mjög hratt en því miður er ekki fylgst með nýjungum á skipulagðan hátt af hálfu opinberra aðila á Íslandi,“ segir Hjörtur. 

Rittúlkun er ekki mikið notuð á Íslandi en nýtist stórum …
Rittúlkun er ekki mikið notuð á Íslandi en nýtist stórum hóp vel. Öryrkjabandalagið hefur boðið upp á þá þjónustu á fundum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eitt af mikilvægum hjálpartækjum heyrnarlausra og heyrnarskertra er rittúlkun en hún er lítið notuð á Íslandi. Víða erlendis er hún algeng. Sést þetta á því að aðeins eru þrír til fjórir rittúlkar starfandi á Íslandi segir Hjörtur.

„Við gerðum könnun meðal heyrnarskertra á Íslandi árið 2015 og kom í ljós að um 60% þeirra vissu ekki hvað rittúlkun væri. Á meðan þeir vita ekki hvað rittúlkun er þá er eðlilegt að eftirspurnin sé lítil eftir slíkri þjónustu.“

Rittúlkun fer þannig fram að rittúlkurinn ritar allt sem fram fer og sagt er og varpar því annaðhvort upp á skjá eða á einhvern annan hátt til notanda. Notandinn les upplýsingar jafnóðum og er alltaf meðvitaður um það sem fram fer. 

Rittúlkun nýtist stórum hópi fólks, öllum þeim sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir og einstaklingum sem eru að ná tökum á íslensku. „Það er engin formleg rittúlkunarþjónusta á Íslandi og engu fjármagni er ætlað í hana. Við erum mjög ólík hinum Norðurlöndunum þar sem hægt er að panta rittúlkun á fundi, námskeið o.fl. Það er mikill áhugi meðal félagsmanna í Heyrnarhjálp um að hér verði sett á laggirnar þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir heyrnarlausa líkt og er fyrir blinda. Gæti hjálpað skólakerfinu og eins vinnustöðum. Slík þjónusta getur komið í veg fyrir að fólk festist á örorku eða í vinnu við eitthvað sem það hefur ekki áhuga á. Í raun er lítið gert til þess að auka vilja fyrirtækja á að ráða til sín fatlaða einstaklinga því ef gera þarf breytingar á vinnustaðnum fyrir viðkomandi fellur það á vinnuveitandann að greiða fyrir breytingarnar í stað þess að geta til dæmis sótt í sjóð fyrir slík fjárútlát eða fengið búnaðinn að láni,“ segir Hjörtur.

Allir eiga sama rétt á upplýsingum en fólk hefur mismunandi forsendur til að meðtaka þær. Margir búa við einhvers konar skerðingu sem fela í sér að laga þarf upplýsingar og samskiptamáta að þeirra þörfum. Stjórnvöldum ber að tryggja það að fólk fái viðeigandi aðstoð og þjónustu sem gerir því kleift að taka til sín og meðtaka upplýsingar, segir Öryrkjabandalag Íslands, en alþjóðlegur dagur aðgengis er haldinn í mars ár hvert.

mbl.is