Hafna lögbanni á ferðir að flugvélaflakinu

Syðst á Sólheimasandi liggur skrokkur af flugvél sem var í …
Syðst á Sólheimasandi liggur skrokkur af flugvél sem var í eigu Bandaríkjahers. Þetta var vél af gerðinni Douglas Dakota DC-3 C 117. Flakið hefur verið vinsæll áfangastaður ferðamanna. Landeigendur vildu fá lögbann á skipulagðar hjólaferðir að flakinu, en sjálfir reka þeir ferðaþjónustuna Arcanum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur hafnað kröfum Arcanum ferðaþjónustu ehf. og tíu landeigenda við Sólheimasand um að fella úr gildi synjun sýslumanns á lögbannsbeiðni og leggja á lögbann vegna skipulagðra hjólaferða sem ferðaskrifstofan Tröllaferðir var með á sandinum að flugvélaflakinu sem þar er að finna.

Flugvélaflakið er vinsæll áfangastaður ferðamanna og lét Vegagerðin útbúa bílaplan við þjóðveginn vegna mikils fjölda ferðamanna sem vildu stoppa þar og fara að flakinu. Þangað liggur 7 kílómetra langur vegur, en vegna ágangs lokuðu landeigendur honum fyrir umferð bíla.

Arcanum rekur ferðaþjónustu og eru meðal annars skipulagðar fjórhjólaferðir um veginn niður að flugvélaflakinu. Tröllaferðir hófu svo að fara þangað á hjólum, eða nánar tiltekið svokölluðum „fat bike“-hjólum sem eru með breiðari dekk en eru á hefðbundnum reiðhjólum.

Arcanum og landeigendur töldu að með þessu væri verið að fara út fyrir almannarétt sem heimilar fólki för um land án sérstaks leyfis landeiganda, ef ekki er farið á vélknúnum ökutækjum. Vísað var til kurteisisreglu um að skipuleggjendur ferða ættu að hafa samráð við landeiganda.

Í dóminum kemur fram að Tröllaferðir hafi ekki starfrækt ferðirnar frá því í október og vildu því að málinu yrði vísað frá. Hins vegar kom fram á vefsíðu þeirra að tímabil slíkra ferða væri frá febrúar til október og taldi dómurinn því ekki hægt að vísa málinu frá á þeirri forsendu, enda hefði ekki verið svarað fyrir það fyrir hönd félagsins hvort hefja ætti ferðirnar aftur á þessu ári.

Hins vegar taldi dómurinn ljóst að sandurinn fyrir sunnan þjóðveg, þar sem flakið er að finna, væri ekki í byggð og að ekki væri séð að umræddar ferðir gætu valdið ónæði við nytjar. „Verður því að telja að á grundvelli almannaréttar sé heimilt að fara um sandinn eins og lýst hefur verið og getur ekki breytt því að það sé í ferðum sem eru skipulagðar af varnaraðila. Óumdeildur eignarréttur sóknaraðila á umræddu landi getur þannig ekki leitt til þess að varnaraðila sé óheimilt að fara með ferðamenn um landið eins og hann hefur gert á grundvelli almannaréttarins,“ segir í niðurstöðu dómsins og ekki talið sannað né sennilegt að athöfnin brjóti gegn lögvörðum rétti landeigenda. Tekið er sérstaklega fram að það breyti engu þótt ferðirnar séu í atvinnuskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert