Hefur ekki áhyggjur af þotunum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum ekki brugðist við því með öðrum hætti en að vinna okkar vinnu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við lækkun hlutabréfa í félaginu um 9,66% í viðskiptum í Kauphöllinni í dag, en talið er líklegt að lækkunina megi að hluta rekja til flugslyss í Eþíópíu um helgina þar sem 157 létu lífið.

Farþegaþotan sem fórst skömmu eftir að hún yfirgaf flugvöllinn í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, var af gerðinni Boeing 737 MAX-8, en Icelandair hefur verið með þrjár slíkar þotur í notkun frá því síðasta vor. Sex aðrar eru væntanlegar í flota félagsins næsta vor og fleiri árið 2020. Farþegaþota sömu tegundar fórst einnig við strendur Indónesíu í október.

„Við setjum eins og alltaf öryggið á oddinn“

Bogi segir aðspurður að notkun Icelandair á þotunum hafi gengið mjög vel. „Við setjum eins og alltaf öryggið á oddinn. Við fylgjumst náið með þeim upplýsingum sem koma um þetta og vinnum með yfirvöldum og flugvélaframleiðandanum.“ Hann segist aðspurður enga ástæðu hafa til að hafa áhyggjur af þotum félagsins miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Komi hins vegar eitthvað annað á daginn sé Icelandair reiðubúið að grípa til þeirra aðgerða sem þörf verði á komi til þess. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert