Samgöngustofa fylgist með Boeing-rannsókn

Boeing 737 MAX 8 farþegaþotur í flugvellinum í Peking. Kínversk ...
Boeing 737 MAX 8 farþegaþotur í flugvellinum í Peking. Kínversk yfirvöld hafa kyrrsett þoturnar og það hafa líka yfirvöld í Indónesíu og á Cayman-eyjum gert. AFP

Samgöngustofa fylgist grannt með gangi máli varðandi Boeing 737 Max 8 farþegaþoturnar, en hátt í 346 manns hafa farist í tveimur flugslysum í þessari gerð af farþegaþotu á skömmum tíma.

Yfirvöld í Kína, Indónesíu og á Cayman-eyjum tilkynntu í dag að þau hefðu kyrrsett þessa gerð af farþegaþotum þar til öryggisskoðun hefur farið fram. Sama gerðu forsvarsmenn Ethiopian Airlines, flugfélagsins sem átti vélina sem hrapaði í gær með þeim afleiðingum að 157 manns létust.

Icelandair, sem á þrjár slíkar vélar, sagði hins vegar í samtali við mbl.is í gær að ekki stæði til að kyrrsetja þessar vélar flugfélagsins. Flugfélagið fylgist hins vegar með framvindu rannsóknarinnar, en lítið sé hins vegar enn vitað um tildrög slyssins.

„Samgöngustofa fylgist með málum,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu í samtali við mbl.is. Samgöngustofa eigi í samstarfi við Evrópu og flugöryggisstofnun Evrópu, sem og við flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum.

„Við fylgjum evrópsku flugöryggisstofnunni og okkar flugöryggi byggir mikið á þessu alþjóðlega kerfi og alþjóðlega samstarfi, þannig Samgöngustofa fylgist vel með umræðunni og hvaða skref eru tekinn,“ segir Þórhildur. 

„Svo erum við líka í miklu samstarfi við íslenska flugrekendur og flugöryggi er náttúrulega samstarfsmál allra aðila,“ bætir hún við.

Það sé síðan flugrekandinn héðan, sem er í þessu tilfelli Icelandair, sem er fyrst og fremst í sambandi við flugvélaframleiðandann, sem í þessu tilfelli er Boeing. „Okkar aðkoma er svo í gegnum flugmálastjórn Bandaríkjanna sem hefur lögsögu þar sem Boeing starfar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina