Dómarar telja dóminn umfram tilefni

Tveir af sjö dómurum í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn …
Tveir af sjö dómurum í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu eru ósammála niðurstöðu meirihlutans í grundvallaratriðum. Ljósmynd/ECHR

Tveir af sjö dómurum Mannréttindadómstóls Evrópu, þar af forseti dómsins Paul Lemmens, telja niðurstöðu hinna fimm í málinu sem höfðað var vegna skipunar dómara við Landsrétt vera langt umfram tilefni þegar þeir segja brot „svívirðileg“.

Þá telja þeir einnig aðferðafræði meirihlutans ótrausta í ljósi þess að ekki sé sérstaklega skoðað hver áhrif skipan dómara hefur á réttláta málsmeðferð, að því er segir í séráliti tveggja dómara í málinu.

Jafnframt er niðurstaða meirihlutans sögð skýrt brot á nálægðarreglu. „Okkar skoðun er sú að þeir [meirihlutinn] hunsa gildi nálægðarreglunnar, með því að hunsa mat hæsta dómstóls landsins [Hæstaréttar Íslands] á viðeigandi innlendum lögum. Matið var gert í sambandi við tilnefningarferli, sem vissulega hafði einhverja annmarka, en var að mestu leyti í samræmi við gildandi lög.“

Umfram tilefni

Dómararnir Lemmens og Gritco segja meirihlutann opna „Pandóru-box“ með því að gera dæmdum kleift að draga í efa lögmæti dóma sem þeir hafa hlotið á grundvelli þátta sem hafa ekkert með réttmæti málsmeðferðarinnar að gera.

„Okkar skoðun er að dómurinn sé dæmi um tilvik þar sem meiri hörku er beitt en tilefni er til. Flugstjórinn í málinu (dómsmálaráðherra og síðar þingið) gerði mistök við stjórnun, en það er ekki næg ástæða til þess að skjóta niður flugvélina (Landsrétt),“ segja þeir í álitinu.

Þá segja þeir skilgreiningu meirihlutans á því sem hann kallar „svívirðilegt brot“ (e. flagrant breach) ekki vera rétta aðferð til þess að skera úr í málinu. Jafnframt þó að aðferðin væri rétt hafi henni ekki verið beitt með réttum hætti.

Dr. Paul Lemmens.
Dr. Paul Lemmens. Ljósmynd/Mannréttindadómstóll Evrópu

Vikið frá meginreglu

„Við erum meðvitaðir um þá staðreynd að [tilnefningar]ferlið varð að mikilli pólitískri deilu [á Íslandi],“ segja dómararnir tveir og vísa meðal annars til þess að lögð hafi verið fram vantrauststillaga á hendur dómsmálaráðherra.

„Við óttumst að uppþotið sem fylgdi skipun fimmtán dómara við nýtt millidómsstig á Íslandi [Landsrétt] hafi ekki bara fundið bergmál í niðurstöðum dómsins, einnig hefur röksemdafærsla meirihlutans vikið frá viðurkenndri meginreglu Mannréttindadómstólsins,“ segir í sérálitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert