Dómsmálum fyrir Landsrétti frestað

Málum sem fjórir dómarar koma að í Landsrétti sem voru …
Málum sem fjórir dómarar koma að í Landsrétti sem voru á dagskrá í þessari viku, hefur verið frestað. mbl.is/Hjörtur

Dómarar Landsréttar funda í dag um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og hvað felst í honum. Þetta segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við mbl.is um áhrif dómsins sem birtur var í dag.

Hann segir að ekki hafi verið tekið saman hversu mörg mál dómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir hafa dæmt í, en málum sem voru á dagskrá þeirra hafi verið frestað.

„Nú eru dómarar að greina það hvað í þessum dómi Mannréttindadómstólsins felst og menn eru ekki komnir til botns í því, þar sem þetta er nýdæmt. Þar að auki voru menn komnir í dómsal þegar niðurstaða Mannréttindadómstólsins lá fyrir,“ segir Björn.

„Þau mál sem eru í þessari viku sem þessir dómarar sem um ræðir hafa aðild að, þeim málum hefur verið frestað. Það er eina ákvörðunin sem hefur verið tekin, annað og dýpra hefur ekki verið greint í málinu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert