Fossvogsbörnin fara í Kópavoginn

Húsnæðið að Fannborg 2 hýsti áður bæjarskrifstofur Kópavogs.
Húsnæðið að Fannborg 2 hýsti áður bæjarskrifstofur Kópavogs. Ljósmynd/Kópavogsbær

Tekin hefur verið ákvörðun um að þeim nemendum Fossvogsskóla, sem ekki geta stundað nám í húsnæði skólans vegna myglu, verði kennt í húsnæði í eigu Kópavogsbæjar að Fannborg 2 í Kópavogi úr skólaárið. Reykjavíkurborg mun taka húsnæðið á leigu.

Þetta kemur fram í bréfi sem Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, hefur sent á foreldra nemenda við skólann. 

„Þar er hentugt húsnæði sem Kópavogur nýtti sér þegar leggja þurfti niður skólahald í Kársnesskóla. Hægt er að koma fyrir kennslu allra árganga Fossvogsskóla í húsnæðinu og er það ómetanlegt fyrir börnin og starfshópinn. Auðvitað mun það taka okkur nokkurn tíma að koma öllu í röð og reglu en við erum sannfærð um að það muni ganga vel.“

Fyrirkomulag matarmála verður að sögn Aðalbjargar með sama hætti og heimild hafi fengist frá Kópavogsskóla til að nýta lóðina þar fyrir frímínútur.

„Fyrirkomulag verður með þeim hætti að frá og með mánudegi 18. mars fara rútur frá Fossvogsskóla og aka börnum í Fannborgina. Í lok skóladags verður börnunum ekið til baka að Fossvogsskóla. Nánari upplýsingar um brottför til og frá skóla koma fyrir helgi. Akstur verður inni á skóladeginum í sund og hreyfingu,“ segir ennfremur.

Fram kemur að frístundaheimilið Neðstaland verði með starfsemi sína í færanlegum stofum á lóð Fossvogsskóla og í Víkinni eins og áður. Undirbúningur að flutningi hefst á skipulagsdögum á fimmtudag og föstudag og mun skólinn njóta leiðsagnar sérfræðinga um hreinsun og val á búnaði og gögnum

„Frístundamiðstöðin Kringlumýri hefur flutt til starfsfólk frá öðrum frístundaheimilum til þess að hægt sé að hafa frístundaheimilið opið allan daginn fyrir þá sem þar eru skráðir. Auðvitað eru þetta breytingar fyrir starfsfólk og börnin - en með samstilltu átaki, gleði og bjartsýni er allt hægt. Framkvæmdir við skólabyggingu Fossvogsskóla hefjast síðan í næstu viku.“

Þá segir að lokum að nánar verði fjallað um málið á foreldrafundi sem haldinn verður í Réttarholtsskóla á morgunklukkan 17:00. Ennfremur sé beðið eftir niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Kópavogs sem liggi fyrir á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert