Framganga lögreglu verði skoðuð

Frá mótmælunum á Austurvelli í dag.
Frá mótmælunum á Austurvelli í dag. mbl.is/Eggert

Farið hefur verið fram á það af Solaris, hjálparsamtökum fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, að framganga lögreglu við mótmæli á Austurvelli í Reykjavík í gær verði tekin til skoðunar af nefnd um eftirlit með störfum lögreglunnar.

Fram kemur í bréfi formanns samtakanna, Semu Erlu Serdar, að ekki hafi verið annað að sjá en að mótmælin hafi farið friðsamlega fram. Það hafi ekki verið fyrr en lögreglan hafi gert tilraun til þess að ýta við hópnum að til ryskinga hafi komið á milli mótmælenda og lögreglunnar. Mótmælendur hafi verið dregnir í burtu, einhverjir handteknir og piparúða beitt.

Sema Erla segist ekki hafa heyrt lögregluna vara við því að til stæði að nota piparúða. Spyr hún hverjar verklagsreglur eru um notkun hans. Hvort ekki eigi að aðstoða þá sem fyrir honum verði og hvernig það hafi verið gert í umræddu tilfelli.

mbl.is