Getur kannað rétta kílómetrastöðu

Ljósmynd/Bílaumboðið Askja

Bílaumboðið Askja, sem er umboðsaðili fyrir Mercedes-Benz- og KIA-bifreiðar á Íslandi, hefur ákveðið að bjóða eigendum slíkra bifreiða upp á að staðreyna að kílómetrastaða akstursmæla bifreiðanna gefi rétta mynd af raunverulegum akstri þeirra. Tilefnið er mál bílaleigunnar Procar sem kom upp fyrir skömmu þar sem upplýst var að hún hefði fært niður kílómetrastöðu bifreiða sem hún átti til þess að auðveldara væri að selja þær. 

Fram kemur í fréttatilkynningu að Askja geti, í samvinnu við framleiðendur Mercedes-Benz- og KIA-bifreiða, í flestum tilfellum staðfest með tölvuaflestri hvort átt hafi verið við akstursmæli þeirra bifreiða sem um ræðir eða ekki. Þar sem hlutum hafi einnig verið skipt út eins og vélartölvu gæti þó verið erfiðara að lesa úr upplýsingum. 

Hægt sé að bóka bifreiðar í skoðun með því að hafa samband við þjónustuver Öskju. „Þessi þjónusta er eigendum Mercedes-Benz- og KIA-bifreiða, sem verið hafa í eigu Procar, boðin að kostnaðarlausu. Óski aðrir eigendur Mercedes-Benz og KIA eftir þessari þjónustu er hún boðin frítt með þjónustuskoðunum,“ segir enn fremur.

mbl.is