Gögnin frá Procar stemmdu ekki

mbl.is/Kristinn Magnússon

Haft var eftir Jóni Trausta Ólafssyni, framkvæmdastjóra Öskju, í fréttaskýringaþættinum Kveik í Ríkisútvarpinu í kvöld að komið hefði í ljós að gögn frá lögmannsstofunni Draupni, sem annast málið fyrir Procar, stemmdu ekki. Fyrir vikið hefði Askja ákveðið að taka ekki bifreiðar, sem umboðið keypti af Procar og seldi áfram, upp í nýja bíla að svo stöddu.

„Þar af leiðandi teljum við, til að gæta hagsmuna okkar viðskiptavina, bæði þeirra sem við höfum selt bíla og þeirra sem munu síðar selja bíla, þá munum við ekki taka bílana upp í að sinni,” er haft eftir Jóni Trausta. Rætt er einnig við Hans Steinar Bjarnason sem keypti KIA-bifreið sem kom í ljós að hefði áður verið í eigu Procar.

Hans Steinar leitaði til Draupnis sem sagði að bíllinn hans hefði ekki verið einn þeirra sem átt hefði verið við akstursmæli í. Hjá Öskju kom hins vegar í ljós að svo hefði verið gert þegar Hans ætlaði að setja bílinn upp í nýjan. Munaði um 11 þúsund kílómetrum. Fyrir vikið var Askja ekki tilbúin að taka bílinn upp í nýja bifreið.

mbl.is