Hurð skall nærri hælum

Flugvélin sem fórst var af gerðinni Boeing 737 Max 8.
Flugvélin sem fórst var af gerðinni Boeing 737 Max 8. AFP

Mögulega hefðu íslensk hjón getað verið um borð í vél flugfélagsins Ethiopean airlines sem fórst skömmu eftir flugtak í Eþíópíu um helg­ina þar sem 157 létu lífið. Eva Magnúsdóttir og eiginmaður hennar, Finnur Sigurðsson, náðu með naumindum að komst í flug með sama flugfélagi sex tímum áður en umrædd vél fórst. 

Þegar þau ætluðu að innrita sig í flug með flugfélaginu sem þau höfðu keypt um ári áður var þeim greint frá því að þau ættu ekkert bókað flug. „Sölumaðurinn ítrekaði að við ættum engin sæti í þessu flugi. Hann fann ekki bókunina. Þetta skipti máli fyrir öll önnur flug okkar á leið heim,“ segir Eva.

Eftir að hafa staðið í miklu stappi komust þau loks um borð í vélina rétt fyrir flugtak. „Þetta var vægast sagt orðið mjög stressandi. Ef við hefðum ekki komist með þessari vél þá hefðum við reynt allt til að komast heim. Hver veit hvað við hefðum gert,“ segir Eva. 

Hún segist hugsi eftir þessa uppákomu sérstaklega í ljósi viðbragða íslenskra flugfélaga um að kyrrsetja ekki flugvélar sínar af þessari sömu gerð og fórst. „Þessar hugleiðingar eru í leiðinni hvatning til þeirra um að hugsa um öryggið. Fólkið fyrst,“ segir Eva. 

Icelanda­ir hef­ur verið með þrjár þotur af gerðinni Boeing 737 MAX-8 í notk­un frá því síðasta vor. Sex aðrar eru vænt­an­leg­ar í flota fé­lags­ins næsta vor og fleiri árið 2020. Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir Group, sagði í sam­tali við mbl.is í gær hafa enga ástæðu hafa til að hafa áhyggj­ur af þotum fé­lags­ins miðað við fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ing­ar. Komi hins veg­ar eitt­hvað annað á dag­inn sé Icelanda­ir reiðubúið að grípa til þeirra aðgerða sem þörf verði á komi til þess. 

Eva Magnúsdóttir
Eva Magnúsdóttir Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert