Hröð atburðarás og óvissa í flugmálum

Boeing 737 MAX-8 farþegaþota í eigu bandaríska flugfélagsins American Airlines.
Boeing 737 MAX-8 farþegaþota í eigu bandaríska flugfélagsins American Airlines. AFP

Boeing 737 MAX-8-farþegaþotan er ein nýj­asta og tækni­leg­asta farþegaþota sem nú er á markaði, en gríðarlegt óvissuástand er nú uppi er varðar vélarnar á alþjóðlegum flugmarkaði.

Upphafið má rekja til tveggja flugslysa þar sem vélar af þessari gerð hafa farist. Fyrst gerðist það í október 2018 þegar þota Lion Air með 189 innanborð fórst skömmu eftir flugtak í Jakarta í Indónesíu. Allir um borð létust.

Á sunnudag fórst svo vél sömu tegundar undir merkjum Ethiopian Airlines með 157 innanborðs. Allir um borð létust, en vélin brotlenti skömmu eftir flugtak frá Addis Ababa í Eþíópíu. Á tæpu hálfu ári hafa því 346 manns farist í tveimur flugslysum þar sem vélar sömu tegundar fórust.

Boeing 737 MAX-8-farþegaþotan kom fyrst á markað árið 2017 og er ein tækni­leg­asta farþegaþota sem nú er á markaði. Boeing hef­ur hins veg­ar sætt gagn­rýni und­an­farið vegna mögu­legra tæknigalla á vél­inni. Sér­fræðing­ar vara þó við að allt of snemmt sé að segja til um hvað hafi valdið slysunum tveimur.

Atburðarásin frá flugslysinu í Eþíópíu á sunnudag hefur verið hröð og spurningar um öryggi Boeing 737 MAX-8-vélanna hafa vaknað. Alls hafa um 350 vélar af þessari tegund verið teknar í notkun í heiminum og mikill fjöldi bíður afhendingar.

Hér verður rakið hvernig málin hafa þróast hvað varðar vélarnar eftir flugslysið á sunnudag.

Þrjár Boeing 737 MAX 8-farþegavélar Shanghai Airlines kyrrsettar í Sjanghæ …
Þrjár Boeing 737 MAX 8-farþegavélar Shanghai Airlines kyrrsettar í Sjanghæ í Kína. AFP

Kínverjar riðu á vaðið

Eftir flugslysið í Eþíópíu riðu kínversk yfirvöld á vaðið í gær og fyrirskipuðu öllum kínverskum flugfélögum að kyrrsetja 737 MAX-8-vélar sínar. Var það sagt vera gert í öryggisskyni um óákveðinn tíma þar til hægt væri að tryggja flugöryggi vélanna. Síðan þá hefur boltinn farið að rúlla um allan heim.

Fljótt á eftir fylgdi ákvörðun yfirvalda í Indónesíu, þar sem vélum af þessari tegund var óheimilt að fljúga í þeirra lofthelgi. Í morgun bættust Ástralía, Malasía og Singapúr í hóp þeirra ríkja sem bönnuðu 737 MAX-8-vélarnar í lofthelgi sinni.

Á meðan fylgdust evrópsk flugmálayfirvöld grannt með stöðu mála og tóku svo af skarið þegar leið á daginn.

Boeing 737 max 8-vél Icelandair.
Boeing 737 max 8-vél Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair fylgdi ákvörðun Breta

Rétt eftir hádegi að íslenskum tíma kom yfirlýsing frá breskum yfirvöldum að allt flug Boeing 737 MAX-8-véla væri bannað í lofthelgi Breta. Írar fylgdu fljótt í kjölfarið.

Þá fór málið að tengjast Íslandi með beinum hætti, en Icelandair hefur þrjár slíkar vélar í flota sínum og flýgur til fimm flugvalla í Bretlandi og á Írlandi. Forsvarsmenn Icelandair tjáðu sig í gærkvöldi og sögðust engar áhyggjur hafa af þotum félagsins miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Klukkan 14.42 í dag birtist hins vegar frétt á heimasíðu Icelandair Group þar sem kom fram að Icelandair hefði tekið ákvörðun um að kyrrsetja allar þrjár Boeing 737 MAX-8-vélar sínar um óákveðinn tíma.

Fram kom í til­kynn­ingu Icelanda­ir Group að fé­lagið fylg­ist áfram náið með þróun mála og vinni með flug­mála­yf­ir­völd­um á Íslandi, í Evr­ópu og í Banda­ríkj­un­um varðandi næstu skref. Um væru að ræða þrjár af 33 farþegavélum í flota félagsins og því myndi kyrrsetning vélanna hafa óveruleg áhrif á reksturinn.

Boeing 737 MAX 8-farþegaþotur hafa verið kyrrsettar víða um heim.
Boeing 737 MAX 8-farþegaþotur hafa verið kyrrsettar víða um heim. AFP

Ríki og flugfélög keppast við að kyrrsetja

Icelandair var ekki eina félagið sem tók ákvörðun um kyrrsetningu í dag. Erlendar fréttaveitur hafa þurft að keppast við að uppfæra fréttir sínar um fjölda landa og flugfélaga sem ákveðið hafa að kyrrsetja Boeing 737 MAX-8-farþegaþoturnar.

Þá bættust yfirvöld í Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi og Noregi við og ákváðu að loka lofthelgi sinni fyrir vélum af þessari tegund. Þær sem nú þegar eru þar staðsettar eru kyrrsettar. Loks var ákveðið að banna flug slíkra véla yfir Evrópu.

Áður en ákvörðun norskra yfirvalda lá fyrir hafði Norwegian Air, sem hefur 18 slíkar flugvélar í flota sínum og hefur pantað 92 slíkar vélar til viðbótar, kyrrsett sínar vélar.

Valin flugfélög í Brasilíu, Indlandi, Mexíkó, Suður-Kóreu og Tyrklandi hafa einnig ákveðið að kyrrsetja vélar sínar þótt stjórnvöld í ríkjunum hafi ekki lokað lofthelgi sinni fyrir vélunum.

Hlutabréf í Boeing hafa lækkað mikið. Flugfélög á borð við …
Hlutabréf í Boeing hafa lækkað mikið. Flugfélög á borð við Icelandair og Norwegian hafa sömuleiðis lækkað. AFP

Hefur mikil áhrif á virði hlutabréfa

Kyrrsetning Boeing 737 MAX-8-véla hefur haft mikil áhrif á markaðsvirði flugfélaga. Norwegian féll í dag um 2,9% í norsku kauphöllinni. Félagið tók mikla dýfu eftir að tilkynning barst um kyrrsetningu vélanna, en náði sér aftur á strik. Norwegian hefur alls fallið um tæp 8% í vikunni og 43% það sem af er ári.

Icelandair hefur einnig tekið dýfu í Kauphöllinni. Í gær féllu hlutabréf í félaginu um 9,66% og í dag féllu bréfin um 5,1% til viðbótar. Sveiflan var mikil í dag og nam lækkunin mest 10% áður en þau réttu úr kútnum á ný.

Boeing-flugvélaframleiðandinn tók stóra dýfu í Kauphöllinni í New York við opnun markaða í gærmorgun. Lækkunin nam 5,33% í gær og þurrkuðust tæplega 1.500 milljarðar króna út af markaðsvirði félagsins í viðskiptum dagsins. Bréfin hafa haldið áfram að lækka í dag.

Boeing 737 MAX 8-farþegaþotur verða sjaldséðar í háloftunum á næstunni.
Boeing 737 MAX 8-farþegaþotur verða sjaldséðar í háloftunum á næstunni. AFP

Kyrrsetning varir um óákveðinn tíma

Jens Þórðar­son, fram­kvæmda­stjóri rekstr­ar­sviðs Icelanda­ir, sagði við mbl.is eftir að ákveðið var að kyrrsetja vélarnar þrjár í flota félagsins að ákvörðunin hefði einungis verið tekin vegna ákvörðunar breskra yfirvalda.

Jens segir að fari svo að kyrrsetning vélanna vari í einhverja mánuði mun það hafa mikil áhrif á sumaráætlun Icelandair. Sex vélar af þessari tegund eru væntanlegar í vor og enn fleiri á næsta ári.

Hvar sem litið er hefur kyrrsetning vélanna verið gerð um óákveðinn tíma og er nú beðið eftir niðurstöðum úr rannsóknum á flugslysinu í Eþíópíu. Lokaskýrsla hefur hins vegar ekki verið gefin út eftir flugslysið í Indónesíu í október.

Því má búast við að óvissan sem ríkir um Boeing 737 MAX-8-vélarnar í alþjóðlegum flugrekstri sé rétt að byrja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert