Sjö vindhraðamet féllu

Að sögn Björns er veður víðast hvar að ganga niður.
Að sögn Björns er veður víðast hvar að ganga niður. mbl.is/Jónas Erlendsson

Mesta vindhviða sem mældist í gærkvöldi mældist hjá veðurathugunarstöðinni Steinum á Suðurlandi og var hún 67,9 m/s og er öflugasta vindhviða sem nokkru sinni hefur mælst þar.

Við uppgjör eftir miðnætti mældust alls sjö met, ýmist mánaðarhraðavindmet eða árshraðavindmet, en að sögn Björns Sævars Einarssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, gætu fleiri met hafa fallið eftir miðnætti.

„Ársvindhraðamet var sett við Hvamm, 30,8 m/s, mánaðarvindhraðamet fyrir mars við Steina, 32,9 m/s eða 12 vindstig. Síðan voru hviðurnar alveg ógurlegar. Síðan voru mánaðarmet á Mýrdalssandi og Ingólfshöfða og hviðumánaðarmet féllu á Ingólfshöfða og Skaftafelli og mánaðarmet í Surtsey,“ segir Björn.

Að sögn Björns er veður nú víðast hvar að ganga niður. Enn er þó nokkuð hviðótt undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert