Ætlar að taka aðgerðir lögreglu upp á nefndarfundi

Frá Austurvelli í gær. Þetta eru fjórðu mót­mæl­in sem skipu­lögð …
Frá Austurvelli í gær. Þetta eru fjórðu mót­mæl­in sem skipu­lögð hafa verið af flótta­fólki á Íslandi og stuðnings­fólki þess síðasta mánuðinn. mbl.is/Eggert

Þingmenn hafa gert viðbrögð lögreglu við mótmælum hælisleitenda á Austurvelli í gær að umtalsefni á samfélagsmiðlum.

Til átaka kom á milli mót­mæl­enda úr röðum flótta­fólks og lög­reglu á Aust­ur­velli í gær og beitti lögregla m.a. piparúða gegn fólkinu. Þetta eru fjórðu mót­mæl­in sem skipu­lögð hafa verið af flótta­fólki á Íslandi og stuðnings­fólki þess síðasta mánuðinn, en síðast var mót­mælt við Útlend­inga­stofn­un í síðustu viku. Þar fóru mót­mæl­in friðsam­lega fram.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að hann ætli að taka aðgerðir lögreglu gegn hælisleitendunum í gærkvöldi upp á nefndarfundi á þinginu í dag. Kolbeinn á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem fundar í dag.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerir aðgerðir lögreglu sem m.a. beitti piparúða gegn mótmælendum, einnig að umtalsefni. „Í dag varð ég vitni að óvenju harkalegum viðbrögðum lögreglu, gagnvart hóp í afar veikri stöðu, sem hugðist tjalda á Austurvelli og vekja athygli á málstað sínum,“ segir Logi á Facebook-síðu sinni.

„Ég minnist ekki að tiltölulega fámennum mótmælum hafi áður verið mætt með slíkum aðgerðum. Ég sá a.m.k. ekkert sem gaf tilefni til slíks.

Þetta bætist við sífelldar þrengingar reglugerða dómsmálaráðherra í málefnum hælisleitenda og flóttamanna og boðað frumvarps hennar um sömu hópa, sem eru mikil afturför.

Er nema von að maður spyrji á hvað leið stjórnvöld eru og hvort hún sé farin með samþykki VG?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert