„Ann dómstólunum of mikið“

Sigríður mun sitja áfram á þingi þótt hún stígi til …
Sigríður mun sitja áfram á þingi þótt hún stígi til hliðar sem ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen stendur föst á þeirri skoðun sinni að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gefi ekki tilefni til afsagnar hennar sem dómsmálaráðherra. Í viðtali við mbl.is segist hún hafa tekið ákvörðunina um að stíga til hliðar fyrr í dag eftir að hún skynjaði að persóna hennar kynni að trufla þær ákvarðanir sem teknar yrðu innan ráðuneytisins.

„Þetta er hinn pólitíski veruleiki. Ég ann dómstólunum of mikið til þess að láta það gerast að menn kunni að hengja sig á það að ég hafi haft aðkomu að þeim ákvörðunum sem þar verða teknar.“

Sigríður mun sitja áfram á þingi þótt hún stígi til hliðar sem ráðherra, en formaður Sjálfstæðisflokksins kemur til með að ákvarða hver tekur við embætti hennar í samráði við þingflokkinn.

Aðspurð hversu langan tíma sé um að ræða segir Sigríður að Íslendingar þekki ekki hversu langan tíma mál geti tekið hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins og því sé það óljóst. Hún gerir ekki ráð fyrir að snúa aftur fyrr en málið verður endanlega til lykta leitt og útilokar ekki að málið muni horfa öðruvísi við að því loknu.

Fjölmiðlar fjölmenntu á blaðamannafund Sigríðar.
Fjölmiðlar fjölmenntu á blaðamannafund Sigríðar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina