Dómsmálaráðherra stígur til hliðar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur ákveðið að stíga til hliðar í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða, þar sem komist var að þeirri niður­stöðu að dóm­ara­skip­un dóms­málaráðherra í Landsrétt hefði brotið gegn mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um.

Þetta tilkynnti Sigríður á blaðamannafundi í dómsmálaráðuneytinu rétt í þessu.

Í máli dómsmálaráðherra kom fram að enginn dómur hefði komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir fimmtán sem skipaðir voru í Landsrétt væru ekki hæfir og að hún stæði við það að dómurinn og umfjöllunarefni hans kæmu á óvart.

Dómnum yrði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Sigríður sagði mikilvægt að fá úr því skorið hvort yfirrétturinn hafi eitthvað við dóminn að athuga, einkum og sér í lagi vegna harðorðrar gagnrýni í sératkvæði tveggja dómara við réttinn. Sagði hún að ef niðurstaðan yrði sú sama í yfirrétti myndi það hafa ófyrirsjáanleg áhrif um alla Evrópu.

Segist Sigríður skynja að hennar persóna kunni að skyggja á þá sátt sem þurfi að gilda um dómstóla og trúverðugleika þeirra og trufla þær ákvarðanir sem verði teknar.

Sagðist hún hafa axlað ábyrgð frá upphafi í þessu máli og talið sig hafa gert það af heiðarleika og gegnsæi og í breiðri sátt. Þetta væri hinn pólitíski veruleiki, en ekki lögfræðilegur veruleiki, í kjölfar dómsins og því ætli hún að stíga til hliðar sem ráðherra til að skapa vinnufrið á næstu vikum meðan málið er leitt til lykta innan dómsmálaráðuneytisins.

Ríkisstjórnin fundar á eftir og aðspurð sagði Sigríður að um hennar eigin ákvörðun væri að ræða og að líklega myndu hinir ráðherrarnir, fyrir utan ráðherra hennar flokks, Sjálfstæðisflokksins, heyra fyrst um ákvörðun hennar í fréttum.

Í máli Sigríðar kom fram að hún teldi dómarana 15 sem skipaðir voru í Landsrétt vera löglega skipaða, en að Mannréttindadómstóllinn hafi varpað fram spurningum sem þurfi að svara hér innanlands af yfirvöldum og dómstólum.

Sigríður tók fram að hún hefði ekki verið hrædd að tjá sig um Landsréttardóm Hæstaréttar frá 2017 og sagðist hún telja hann gallaðan að mörgu leyti. Hún sagðist ekki ætla að tjá sig um dóm Mannréttindadómstólsins meðan hún gegndi embætti dómsmálaráðherra, en að hún myndi ekki láta það átölulaust að dómstólar, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, yrðu notaðir í pólitískum tilgangi. Þá sagðist hún heldur ekki ætla að láta það átölulaust ef vald íslenskra dómstóla til túlkunar á íslenskum lögum yrði framselt til erlendra dómstóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina