Dómurinn „árás á fullveldi Íslands“

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi það hvernig staðið var að skipun dómara í Landsrétt er ekkert minna en árás á fullveldi Íslands. Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, í pistli sem birtur er í dag á vefsíðu lögmannsstofu hans JSG lögmenn. Þetta segir Jón Steinar að allir ættu að geta verið sammála um hvaða afstöðu sem þeir annars kunni að hafa til málsins sem slíks. Segist hann ganga þar út frá því að Íslendingar séu einhuga um að varðveita fullveldið.

Rakið er í pistlinum hvernig staðið var að skipun dómaranna við Landsrétt og að þegar málið hafi komið fyrir Hæstarétt hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir ákveðna annmarka skipunarferlinu væru dómararnir löglega skipaðir. Þar með hefði þeim ágreiningi átt að vera lokið. Þá hefði Mannréttindadómstóllinn stigið inn á sviðið og komist að þeirri niðurstöðu að vegna þess hvernig staðið hefði verið að skipun eins Landsréttardómarans sem dæmdi í ákveðnu máli hefði verið brotinn réttur á sakborningnum.

Mannréttindadómstóllinn hefði ekki komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferðin gegn sakborningnum hefði efnislega verið ófullnægjandi, það er að hann hefði ekki notið þeirra réttinda sem honum hafi borið við málsmeðferðina. „Samt hefði verið brotinn á honum réttur vegna annmarka á skipun eins dómaranna,“ segir Jón Steinar og bætir við að Íslendingar yrðu að gera sér grein fyrir því að þarna væri um að ræða „umbúðalausa árás á fullveldi Íslands“ eftir að innlendar stofnanir hefðu metið dómarana rétt skipaða.

„Þær hafa líka komist að þeirri niðurstöðu, sem MDE reyndar véfengir ekki, að maðurinn hafi hlotið réttláta málsmeðferð. Hvað er dómurinn þá að vilja? Hvað kemur honum við skipun dómarans sem allar íslenskar valdastofnanir hafa staðfest að sé gild? Ástæða er til að skora á þátttakendur í málskrúði daganna að sitja nú á sér og taka höndum saman um að hrinda þessari aðför sem Ísland hefur nú sætt frá erlendri stofnun sem blygðunarlaust sækir sér vald sem hún fer alls ekki með. Þeir ættu að sýna stærð með því að sameinast til varnar fyrir fullveldi landsins í stað þess að hjakka í fari síður merkilegra deilna innanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert